Í tilefni af útkomu bókarinnar “Lífsfylling” heldur Styrktarfélagið Líf kynningarfund með fyrirlestrum og kaffisölu í safnaðarheimili Háteigskirkju þriðjudagskvöldið 19. október, kl. 20:00. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.
Dagskrá:
- Bjarney Harðardóttir formaður félagsins kynnir starfsemina og segir frá því sem er framundan
- Kristján Skúli Ásgeirsson skurðlæknir fjallar um skurðaðgerðir vegna brjóstakrabbameins
- Edda Björgvinsdóttir leikkona fjallar um húmor og jákvætt viðhorf
“Lífsfylling” er full af girnilegum uppskriftum, samtals 168 síður.
Í bókinni eru forréttir, súpur, fiskréttir, kjötréttir, grænmetisréttir, salöt, eftirréttir, matarbrauð, kökur, tertur, heitir og kaldir smáréttir og sultur.
Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur til Lífs. Hún kostar 2.500 krónur. Bókin verður til sölu á kynningarfundinum og þeir sem vilja leggja félaginu lið með því að selja hana geta gengið frá því á fundinum eða haft samband við Hönnu S. Antoníusdóttur sölustjóra, netfang: hanna@centrum.is eða í s. 568 5919 og 863 3221. Þeir sem vilja leggja félaginu lið með því að starfa í hinum ýmsu nefndum eru sérstaklega velkomnir á fundinn.
Tilgangur Styrktarfélagsins Lífs er að styrkja kvennadeildir Landspítala, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.