Mikill fjöldi fólks kom við á sýningarbásum Landspítala á Vísindavöku Rannís 2010 sem var í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu föstudaginn 24. september frá kl. 17:00 til 22:00. Vísindavakan var mjög glæsileg og aldrei hafa fleiri sótt þennan viðburð, gestirnir voru um 4.200.
Vísindavaka er haldin í flestum borgum Evrópu á sama tíma. Markmiðið er að færa vísindin nær almenningi og gefa fólki kost á að spjalla við fræðimenn um rannsóknir þeirra og viðfangsefni.
Landspítali var áberandi á Vísindavöku Rannís og voru margar áhugaverðar rannsóknir kynntar og vísindastarfsemi á spítalanum.
Sjá nánar hér
Myndir:
- Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýklafræðideildar, útskýrir hvernig bakteríur eru ræktaðar og greindar. Á skálinni er streptókokkur sem talinn er líklegasta orsök hestasóttarinnar og getur líka valdið sýkingum í mönnum.
- Börnin trúðu ekki Herdísi Þórisdóttur aðstoðaryfirsjúkraþjálfara að svona lagað væri í þeim, þetta hlyti að vera úr gíraffa!
- Magnús Jóhannsson sálfræðingur og klínísku taugasálfræðingarnir Sólveig Jónsdóttir, María K. Jónsdóttir og Claudia Ó. H. Georgsdóttir. Kynning á taugasálfræði og taugasálfræðirannsóknum vakti mikla athygli, eins og annað á sýningarbásum Landspítala.
- Landspítali var með fjóra sýningarbása og kynnti fjölmargt. Þarna var meðal annars verið að sýna mynd um vísindastarfsemina á spítalanum yfirleitt og kynna rannsókn á tengslum þunglyndis og sykursýki af tegund 2 meðal aldraðra á Íslandi.