Starfsfólk endurhæfingardeildarinnar á Grensási tók formlega við stórgjöf Lionsklúbbsins Njarðar 13. september 2010 sem afhent var í tilefni af 50 ára starfsafmæli klúbbsins 20. apríl í vor. Sigrún Knútsdóttir yfirsjúkraþjálfari hafði orð fyrir starfsfólkinu og færði gestunum þakkir. Verðmæti gjafarinnar var nærri 30 milljónir króna. Öllum tækjum og búnaði hefur verið komið fyrir og klúbbfélagarnir sáu hann í sínu rétta umhverfi.
Gjöfin skiptist milli fimm deilda á Grensási:
- Sálfræðiþjónustan fékk tölvustýrt mats- og endurhæfingarprógram fyrir athygli/einbeitingu og gaumstol og tvær Dell borðtölvur.
- Sjúkradeild var færður húsbúnaður, stólar og borð, sem sérstaklega er hannaður fyrir þarfir slíkra deilda.
- Talmeinaþjónustan fékk Canon vídeóupptökuvél ásamt þrífæti og myndavél, Dell fartölvu og MultiLevel MM 40 tjáskiptatæki.
- Iðjuþjálfun var gefinn sturtustóll LOP-25199, Panthera U2 hjólastóll og rafdrið vinnuborð/lyftuborð fyrir hjólastóla.
- Sjúkraþjálfun Grensáss fékk stærstu gjafirnar sem eru rafdrifinn stand- og magahjólabekkur og tvær Entroy sundlaugarlyftur ásamt fylgibúnaði.
Lionsklúbburinn Njörður er stærsti Lionsklúbbur landsins en í honum eru 60 félagar. Hann hefur styrkt fjölbreytt verkefni á 50 árum fyrir 200 - 250 milljónir króna, fært til núvirðis. Helstu styrkþegar hafa verið Flugbjörgunarsveitin, Blindrafélagið, einkum hljóðbókasafn þess, háls-, nef- og eyrnadeildin í Fossvogi, öldrunarþjónustan á Landakoti, Mótorsmiðjan, endurhæfingardeildin á Grensási, Orkester Norden (Hljómsveit norrænna ungmenn) og fjölmargir aðrir.
Lionsklúbburinn Njörður hefur tekið virkan þátt í landsverkefnum Lionshreyfingarinnar, svo sem Rauðu fjöðrinni. Hann hefur einnig tekið þátt í erlendum verkefnum Lionshreyfingarinnar með ýmsum hætti.
Núverandi stjórn Lionsklúbbsins Njarðar:
Steinar Petersen formaður
Guðmundur M.J. Björnsson ritari
Guðlaugur Guðmundsson gjaldkeri