Fullkomið ómtæki, sérstaklega ætlað til deyfinga, var formlega afhent svæfingardeildinni á skurðstofum kvennadeilda þann 10. september 2010. Með tækinu fylgja 2 ómhausar ætlaðir til deyfinga á mismunandi dýpi. Verkjastilling með deyfingum flýtir fyrir því að sjúklingar komist á fætur og fækkar fylgikvillum tengdum verkjum. Gefendur eru Kvennadeild Rauða kross Reykjavíkur og Soroptimistaklúbbur Hafnafjarðar og Garðabæjar.
Ómtækni hefur á síðastliðnum áratugum valdið byltingu í greiningu og meðferð sjúklinga. Á svæfingar- og gjörgæsludeild LSH hefur þessi tækni fram að þessu verið notuð við mat á hjartastarfsemi við hjartaaðgerðir og á gjörgæslu. Einnig við mat og staðsetningu við ísetningu á miðbláæðaleggjum. Vaxandi notkun um allan heim hefur verið á ómtækni við lagningu deyfinga hjá sjúklingum sem fara í aðgerðir og við deyfingar hjá sjúklingum með langvinna verki.