Fjölmenni var við formlega opnun Hringsbúðar í anddyri Barnaspítala Hringsins föstudaginn 10. september 2010 þegar tekin var í notkun veitingasala kvenfélagsins Hringsins eftir miklar breytingar. Afgreiðsluborðið, sem til þessa hefur verið í endanum á anddyrinu, hefur nú verið haganlega komið fyrir til hliðar án þess að minnka salinn. Þar með stórbatnar aðstaða fólksins í afgreiðslunni og þeirra sem njóta þjónustunnar. Auk þess hefur tækjakosturinn verið endurnýjaður. Byggingarsjóður Barnaspítala Hringsins stóð undir stærstum hluta kostnaðar við breytingarnar.
Hringsbúð er opin frá kl. 8:00 til 14:00. Að baki henni er tvö og hálft starf Hringskvenna, auk sjálfboðaliða sem leggja líka mikið af mörkum. Þarna er hægt að fá súpu, salat, samlokur og smárétti ýmsa. Með endurbættri aðstöðu skapast færi til þess að auka úrvalið enn frekar.
Valgerður Einarsdóttir, formaður kvenfélagsins Hringsins og Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs fögnuðu nýju Hringsbúðinni í ávörpum sínum. Fyrir athöfnina skemmti tónlistarfjölskylda gestum með glæsilegum flutningi, Edda Viðarsdóttir, Viðar Jónsson og Þórir Úlfarsson. Edda og Viðar eru feðgin og Þórir er eiginmaður hennar. Þau hjónin hafa þurft að vera langdvölum á Barnaspítala Hringsins að undanförnu með lítinn dreng sinn.