Samningurinn var undirritaður í Þórshöfn í Færeyjum þann 19. ágúst 2010. Samninginn undirrituðu Björn Zoëga, forstjóri LSH og Poul Geert Hansen, ráðuneytisstjóri færeyska heilbrigðismálaráðuneytisins. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Aksel V. Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja, staðfestu samninginn jafnframt með undirritun sinni.
Um er að ræða rammasamning um sölu sjúkrahúsþjónustu Landspítala. Kaupandi er færeyska heilbrigðisráðuneytið fyrir hönd landssamtaka sjúkrahúsa í Færeyjum. Samningurinn nær til hvers konar sjúkrahúsþjónustu (greiningarrannsóknir, meðferð og eftirlit á legudeildum, dag- og göngudeildum, auk dvalar á sjúkrahóteli sé þess þörf fyrir sjúkling og/eða fylgdarmenn hans) og á grunni hans má semja um frekari samvinnu, svo sem að læknar LSH veiti þjónustu á sjúkrahúsum í Færeyjum. Greitt verður fyrir þjónustuna samkvæmt DRG verðskrá LSH (DRG: Diagnosis Related Groups) sem byggð er á kostnaðargreiningu allrar þjónustu Landspítala.
Auk viðskiptalegra þátta tekur samningurinn mjög skýrt á samskiptum milli sjúkrahúsanna. Þar er meðal annars fjallað um boðleiðir og miðlun nauðsynlegra sjúkraskrárgagna, forgangsröðun ef um biðlista er að ræða og hvernig læknisfræðilegri ábyrgð skuli háttað í tengslum við meðferð sjúklinga, einkum þegar sjúklingar flytjast milli íslenskra og færeyskra meðferðaraðila. Einnig er fjallað um réttindi sjúklinga hvað varðar upplýsingagjöf, þátttöku í rannsóknum og úrræði ef til kvartana eða kæra kemur. Með þeim hætti er lögð áhersla á öryggi og gæði þjónustu og jöfnuð meðal þeirra er þjónustuna þiggja.
Þetta er fyrsti samningurinn sem gerður er við annað land um alhliða sjúkrahúsþjónustu á Íslandi. Samningurinn skapar grundvöll að frekara samstarfi, t.d. um meðferð sjaldgæfra sjúkdóma. Hann stuðlar að meiri nýtingu mjög dýrra tækja og búnaðar og hraðari endurnýjun á honum. Samningurinn getur líka aukið möguleika Landspítala á að taka upp nýja þjónustu sem áður hefur verið veitt erlendis þar sem fleiri sjúklingum stæði hún til boða nú en áður. Þannig geta líka skapast tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk með sérstaka þjálfun að flytja heim til Íslands og fá starf við hæfi.