Niðurstaða dómnefndar var kynnt við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi föstudaginn 9. júlí 2010. Í SPITAL teyminu eru ASK arkitektar, Bjarni Snæbjörnsson arkitekt, Kanon arkitektar, Medplan, Teiknistofan Tröð, Landark, Efla verkfræðistofa, Lagnatækni og Norconsult. Helgi Már Halldórsson arkitekt og verkefnisstjóri SPITAL hópsins tók við verðlaununum fyrir hans hönd.
Vinningstillagan
Heildarúrslit og niðurstaða dómnefndar
Ein af meginforsendum hönnunarsamkeppninnar var að flytja starfsemi Landspítala í Fossvogi að Hringbraut og ljúka þannig sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu. Samkeppnin var tvíþætt og náði annars vegar til tillögu að áfangaskiptu skipulagi Hringbrautarlóðarinnar og hins vegar tillögu að frumhönnun 1. áfanga verkefnisins. Í honum er gert ráð fyrir spítalastarfsemi í 66.000 m² nýbyggingu og háskólastarfsemi í allt að 10.000 m² nýbyggingu.
Forval var auglýst í desember 2009 og bárust umsóknir um þátttöku frá sjö hönnunarteymum. Fimm stigahæstu teymunum var boðin þátttaka í samkeppninni í febrúar 2010 og skiluðu þau tillögum sínum 10. júní 2010.
Einróma niðurstaða
Við mat á tillögunum lagði dómnefnd höfuðáherslu á heildarlausn, yfirbragð, ytri og innri tengsl, sveigjanleika og hagkvæmni. Nefndin leitaði auk þess álits innlendra og erlendra ráðgjafa.
Dómnefndin telur að allar tillögurnar séu metnaðarfullar og vel fram settar þar sem gamli spítalinn njóti sérstöðu sinnar. Það var hins vegar einróma niðurstaða nefndarinnar að velja tillögu SPITAL til að útfæra deiliskipulag og frumhanna byggingar 1. áfanga nýs Landspítala við Hringbraut.
Spítalalóðin byggð upp sem „bæjarhverfi“ Í umsögn dómnefndar er vinningstillögunni lýst sem sterkri hugmynd og höfundar nái vel því markmiði sínu að skapa „bæjarsamfélag sem myndar ramma um þverfaglegt samstarf ólíkra greina“. |
Orðrétt segir m.a. í niðurstöðu dómnefndar:
„Sveigjanleiki starfseininga er góður vegna lögunar bygginga og stöðlunar þeirra. Svigrúmi til stækkunar er haldið með sveigjanleika „bæjarhverfis“. Áfangaskipting hefur ekki í för með sér röskun á starfsemi spítalans á framkvæmdatíma. Með tilliti til stofnkostnaðar og rekstrar starfseminnar er tillagan metin hagkvæm.“
Þá er uppbrot starfseminnar í aðskildar byggingar meðfram götum talið ríma ágætlega við núverandi byggð á lóðinni og skírskotar jafnframt til vinningstillögu um skipulag Vatnsmýrarinnar. Barónsstígur er tengdur við nýja Hringbraut og afmarkast uppbygging spítala- og háskólastarfsemi á lóðinni austanvert við hann.
Þá kemur fram í umsögninni að uppbrot byggðar með stöllun bygginga, görðum, torgum og gróðri stuðli að fjölbreytileika á svæðinu og aðaltorgið fyrir framan gamla spítalann og aðalinngang nýja spítalans, skapi svæðinu sterka miðju. Stærð og staðsetning torgsins sé til þess fallin að þar þrífist skemmtilegt mannlíf. Grunnhugmynd tillögunnar er talin tryggja greiða umferð akandi, gangandi og hjólandi um spítalalóðina og aðkoma sjúkrabíla sé nokkuð greið.
Markmið um innra fyrirkomulag og tengingar næst í megindráttum í vinningstillögunni að áliti dómnefndar. Sjúklingahótel er ráðgert norðan við barna- og kvennadeild, í góðum tengslum við væntanlegan notendahóp. Rannsóknarstofum spítalans og háskólastarfsemi er komið fyrir í byggingum sunnan við nýju spítalabygginguna og gengur Læknagarður í endurnýjun lífdaga með nýbyggingum háskólahlutans. Þá er uppbygging háskólastarfsemi og Keldna til austurs á lóðinni í síðari áfanga verkefnisins sannfærandi að mati dómnefndar.
Til sýnis á Háskólatorgi
Vinningstillaga SPITAL, sem og hinar tillögurnar fjórar í hönnunarsamkeppninni, verða almenningi til sýnis á Háskólatorgi frá og með deginum í dag, 9. júlí, og fram eftir ágústmánuði.
Næstu skref
Hönnunarsamkeppnin er síðasta verk verkefnisstjórnar um nýjan Landspítala því um miðjan júní 2010 samþykkti Alþingi lög um stofnun opinbers hlutafélags sem standa mun að undirbúningi og útboði á byggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Félagið, sem er að taka til starfa, fær lokaskýrslu verkefnisstjórnar þar sem m.a. er lagt til að samið verði við SPITAL um forhönnun bygginga og skipulagsmál en forhönnun og útboðsgögn vegna framkvæmda eiga að liggja fyrir vorið 2011. Gert er ráð fyrir alútboði og að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu til allt að 40 ára þegar byggingarverktaki hefur lokið umsömdu verki.
Samkvæmt áætlunum verkefnisstjórnar, sem fékk heimild heilbrigðisráðherra til að vinna verkefnið áfram í framhaldi af viljayfirlýsingu við lífeyrissjóðina í nóvember 2009, ættu jarðvegsframkvæmdir að geta hafist sumarið 2011.
Dómnefndin
Dómnefnd hönnunarsamkeppninnar var skipuð af heilbrigðisráðherra:
Guðrún Ágústsdóttir, fv. forseti borgarstjórnar og formaður skipulagsnefndar Reykjavíkur, formaður
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi forseti borgarstjórnar
Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala,
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala
Sigurlaug Ingibjörg Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands
Aðalsteinn Pálsson verkfræðingur
Finnur Björgvinsson arkitekt
Helgi Hjálmarsson arkitekt
Sigríður Ólafsdóttir arkitekt.
Ritari dómnefndar var Ásdís Ingþórsdóttir arkitekt og trúnaðar- og umsjónarmaður var A. Katrín Arnórsdóttir, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum.
Ljósmyndir:
Hönnunarteymið SPITAL varð hlutskarpast í samkeppni um áfangaskipt heildarskipulag fyrir nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut og frumhönnun 1. áfanga nýja spítalans og tengdrar háskólastarfsemi.
Helgi Már Halldórsson frá Spital hópnum og Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Skylt efni:
Alþingismenn einhuga um byggingu nýs Landspítala
Fimm hönnunarteymi valin vegna nýs Landspítala
Vefur um nýtt háskólasjúkrahús
Vefur SPITAL hópsins