Alexandrína, drottning Danmerkur og Íslands, lagði hornstein að byggingu Landspítala við hátíðlega athöfn 15. júní 1926. Fyrsti sjúklingurinn var síðan lagður inn á spítalann 20. desember 1930. Á sýningunni er leitast við að varpa ljósi á aðdraganda byggingar Landspítala, fyrstu starfsárin og á listaverkaeign spítalans.
Sýningin er undirbúin af listmuna- og minjanefnd Landspítala. Hún skiptist í sex hluta.
- Fyrstu skrefin: Þáttur kvenna
- Fyrstu skrefin: Bygging Landspítala
- Fyrstu skrefin: Gömul lækningaáhöld
- Gamlar ljósmyndir frá 1933
- Listaverkaeign Landspítala: Framlög úr Listskreytingasjóði ríkisins
- Listaverkaeign Landspítala: Andlit spítalans.
Við opnun sögusýningarinnar afhjúpaði Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, mynd af Vigdísi Magnúsdóttur (1931-2009), fyrrverandi hjúkrunarforstjóra og forstjóra spítalans. Myndinni hefur verið komið fyrir í stigahúsi gamla spítalans (gengið til hægri úr anddyri).
Mynd: Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Við opnun Sögusýningar Landspítala 15. júní 2010