Kvenfélagið Hringurinn var Landspítala traustur bakhjarl árið 2009 eins og löngum fyrr. Það má glöggt sjá í grein sem birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2010 í kjölfar aðalfundar félagsins. Þar kemur fram hjá Valgerði Einarsdóttur, formanni kvenfélagsins Hringsins, að styrkveitingar Hringskvenna voru óvenju háar árið 2009 og að Landspítali naut góðs af því.
"Alls runnu 94 milljónir kr. úr sjóðum Hringsins til góðra málefna og í ár var það fyrst og fremst BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, sem naut góðs af og hlaut um 50 milljónir kr.
Vökudeild spítalans fékk einnig veglegan styrk, eða rúmar 37 milljónir kr., m.a. til kaupa á öndunarvélum, hitaborðum og vöggum auk augnbotnamyndavélar sem er sérstaklega ætluð fyrir fyrirbura og eina slíka tækið hér á landi en það auðveldar læknum að greina hættu á sjúkdómum. Hringskonur styrktu einnig við bakið á bráðadeildinni í Fossvogi í fyrra og heldur það áfram á þessu starfsári."