Stefna Landspítala 2010 til 2016
Á ársfundi Landspítali 2010, í Salnum í Kópavogi 21. apríl, var kynnt stefna spítalans til ársins 2016. Í henni er farið vandlega yfir þau markmið sem vinna á eftir og fylgja á tímabilinu. Mikil vinna liggur að baki stefnumótuninni og sóttu ríflega 1.800 starfsmenn LSH 62 sparnaðar- og stefnumótunarfundi sem haldnir voru. Á fundunum var óskað eftir tillögum frá starfsfólki. Alls bárust 3.400 sparnaðartillögur og um 800 tillögur vegna stefnumótunarvinnu.
Gildi Landspítala: Umhyggja – Fagmennska – Öryggi – Framþróun
• Umhyggja og fagmennska einkenna starf Landspítala.
• Öryggi sjúklinga, starfsmanna og samfélags er til grundvallar öllu starfi.
• Menntun og vísindi eru í heiðri höfð enda hvílir starfsemi Landspítala á framþróun þekkingar og hagnýtingu hennar og á vel menntuðu starfsfólki sem byggir ákvarðanir á gagnreyndri þekkingu.
Meðal nýmæla í stefnu Landspítala er að árangursmælingar verði efldar svo hægt verði að bregðast við sveiflum í rekstrinum og tryggja þann árangur sem að er stefnt.
Þegar horft er til markmiðasetningar á yfirstandandi ári er eftirfarandi sett í forgang: Rekstur innan fjárheimilda, öryggi sjúklinga, skilvirkir verkferlar og góður vinnustaður.
Í fyrsta skipti í sögu Landspítala er birt ítarlega í tölum og texta hvaða markmiðum á að ná á fjölmörgum sviðum spítalans og jafnframt skilgreint hvernig eigi að fara að því að ná þessum markmiðum. Þannig er stefnt að því að daglegur meðalfjöldi inniliggjandi sjúklinga dragist saman um 5% á þessu ári og einnig á því næsta. Biðlistar minnki um 10% bæði í ár og einnig á því næsta. Starfsmannavelta minnki úr 11,5% árið 2009 í 8% á yfirstandandi ári. Nemendum í meistara- og doktorsnámi fjölgi um 5% í ár og einnig árið 2011.