Ragnar Bjarnason hefur verið ráðinn yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, Landspítala, frá 1. apríl 2010 til fimm ára. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 og sérfræðinámi í barnalækningum í Svíþjóð 1991 þar sem hann starfaði á barnadeild í Borås í 2 ár og síðan á Drottning Sylvias barnasjúkrahúsinu í Gautaborg frá 1991 til 2002, þar af sem yfirlæknir 1999 til 2002. Hann hefur sérfræðiviðurkenningu í barnalækningum og innkirtlasjúkdómum barna frá 2000. Frá 2002 hefur Ragnar unnið á Barnaspítala Hringsins.
Ragnar lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Gautaborg 1997 og var skipaður docent í barnalækningum við Háskólann í Gautaborg 2001. Hann vann áfram við GU í 50% starfi eftir flutning til Íslands til ársloka 2006. Hann hefur stjórnað ýmsum rannsóknarhópum og verið í alþjóðlegu samstarfi. Ragnar hefur annast stundakennslu við Háskóla Íslands og var ráðinn dósent í barnalæknisfræði 1. janúar 2010. Hann gegnir ýmsum félags- og trúnaðarstörfum sem tengjast fagi hans og sérgrein.