Eftirfarandi breytingar verða á þjónustu bráðamóttöku geðsviðs, fíkniefnameðferð og móttökuteymi göngudeildar geðsviðs á Landspítala þann 1. apríl 2010:
Styttur þjónustutími bráðamóttöku geðsviðs
Bráðamóttakan verður opin kl. 12:00 - 19:00 virka daga og 13:00 - 17:00 á frídögum og helgidögum. Vegna þessara breytinga verður mönnunin styrkt á þjónustutíma. Utan þjónustutíma bráðamóttöku geta læknar, lögregla og fulltrúar Geðhjálpar hringt í neyðartilvikum í síma 543 1000 og beðið um
-vaktlækni geðsviðs
-bráðamóttöku geðsviðs
Breyting á verklagi á göngudeild fíknimeðferðar
Bráðalyfjagjöf við fráhvarfseinkennum verður hætt þannig að engin fráhvarfslyfjameðferð er veitt nema að undangengnu mati fagteymis á göngudeild fíknideildar.
Bráðamóttaka geðsviðs mun áfram þjóna fíklum sem þangað leita og bregðast við vanda þeirra sé hann það alvarlegur að hann þoli enga bið. Sé einstaklingur hins vegar ekki metinn í bráðri hættu er gerð tilvísun í göngudeild fíknimeðferðar og hann kallaður inn í bókað greiningarviðtal sem boðið verður upp á eins fljótt og auðið er.
Tilvísunareyðublað vegna fíknivanda má nálgast vef Landspítala og senda til göngudeildar fíknimeðferðar, geðsviði Landspítala Hringbraut, 150 Reykjavík.
Takmarkanir á tilvísunum frá heilsugæslu í almenna göngudeildarmeðferð
Móttökuteymi göngudeildar tekur við tilvísunum frá heilsugæslunni vegna geðraskana, annarra en fíknivanda. Skilyrði er að læknir heilsugæslu hafi þegar sett greiningu og reynt meðferð án ásættanlegs árangurs. Sé eingöngu óskað eftir sálfélagslegum úrræðum mun geðlyfjameðferð og lækniseftirlit verða áfram í höndum heilsugæslulæknis þótt sjúklingur þiggi aðra meðferð á göngudeild. Tilvísanir þar sem fram koma upplýsingar um sjúkra- félags- og heilsufarssögu ásamt núverandi og fyrri meðferð eru sendar með bréfi til yfirlæknis göngudeildar 31E, geðsviði Landspítala Hringbraut, 150 Reykjavík.