Jón Snorrason hefur verið ráðinn hjúkrunardeildarstjóri á deild 15 á Kleppi, geðsviði frá og með 1. mars 2010. Ráðning hans er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH og viðtala.
Jón lauk BSc prófi í hjúkrunarfræði frá HÍ 1979 og er nú að ljúka meistaranámi í hjúkrun. Ritgerð hans heitir ,,Aðferðir sem starfsfólk geðsviðs notar til að róa reiða og spennta sjúklinga". Hann sótti námskeið í Bretlandi um hvernig á að kenna viðbrögð við ofbeldi og hefur einnig verið leiðbeinandi á námskeiðum í viðbrögðum við ofbeldi frá árinu 1999.
Jón hefur unnið heilmikið frumkvöðlastarf í menntun starfsfólks á geðdeildum, ekki aðeins við að takast á við ofbeldisaðstæður heldur lagt áherslu á að starfsfólkið geti fyrirbyggt ofbeldi með viðeigandi hegðun og næmni á aðstæður. Hann hefur starfað lengst af sem hjúkrunardeildarstjóri á geðdeildum á Borgarspítala og Landspítala en verið síðustu ár verkefnastjóri í öryggismálum á geðsviði Landspítala.