Vegna sameiningar slysa- og bráðadeildar í Fossvogi, göngudeildar G3 í Fossvogi og bráðamóttöku við Hringbraut hefur verið ráðið í stöður hjúkrunardeildarstjóra bráðadeildar G2 og bráða- og göngudeildar G3 frá 1. mars 2010.
Ragna Gústafsdóttir hefur verið ráðin hjúkrunardeildarstjóri bráðadeildar G2 í Fossvogi. Ráðning hennar er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH og viðtala.
Ragna lauk prófi árið 1982 frá Hjúkrunarskóla Íslands og Bsc í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Hún útskrifast með meistaranám í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands í vor. Lokaverkefni hennar er straumlínustjórnun (lean management) á slysa- og bráðadeild. Ragna hefur tekið þátt í mörgum þróunarverkefnum innan bráðaþjónustunnar og auk þess sinnt stundakennslu.
Ragna hefur fjölbreytta starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur og starfað sem slíkur frá árinu 1982. Hún hefur verið deildarstjóri slysa- og bráðadeildar frá árinu 2005 og aðstoðardeildarstjóri frá 1994 til 2004.
Bryndís Guðjónsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri bráða- og göngudeildar G3 í Fossvogi. Ráðning hennar er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH og viðtala.
Bryndís lauk prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981 og hefur fjölbreytta starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur. Frá árinu 2008 hefur Bryndís starfað bæði á deild G2 og G3, hún var verkefnastjóri hjá Heilsuverndarstöðinni ehf. og sviðsstjóri hjá MEDICA ehf á árunum 2007 - 2008. Hún starfaði í útskriftar- og öldrunarteymi LSH á árunum 2004 - 2007, vann á slysa- og bráðadeild 1999 - 2004 og var hjúkrunarforstjóri og rekstrarstjóri á heilsugæslustöð Eskifjarðar á árunum 1993 - 1998. Fyrir þann tíma starfaði hún á skurðsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur en vann á á skurðdeildum Odense sygehus frá 1982 til ársins 1985.