Út eru komnir tveir fræðslubæklingar um geðheilbrigði barna, annar ætlaður unglingum og hinn aðstandendum barna og unglinga. Bæklingarnir eru unnir á vegum barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) í samstarfi við Lýðheilsustöð og Landlæknisembættið. Þeir voru kynntir í fyrsta sinn á árlegri ráðstefnu BUGL ,,Snemma beygist krókurinn - Bjargráð og þjónusta í nærumhverfi" sem haldin var föstudaginn 15. janúar 2010 í Þróttarsalnum í Laugardal í Reykjavík.
Ákveðið var að ráðast í gerð fræðslubæklinganna í ljósi þess að ekkert efni var til á íslensku um þetta efni en þörfin fyrir fræðslu sem þessa er mjög brýn.
Meðal þess sem fjallað er um:
-hvað er geðheilsa
-hvað truflar geðheilsu
-helstu merki um geðheilsuvandamál
-hvernig nálgast má aðstoð ef vanda ber að höndum
-nokkur góð ráð sem styrkt geta geðheilsuna
Bæklingurinn fyrir unga fólkið brýst saman þar til hann er svo smár að auðvelt er að setja hann í vasann eða töskuna en hinn sem er fyrir aðstandendur er í hefðbundnara útliti.
Hægt er að skoða bæklingana á vefsvæði BUGL á upplýsingavef Landspítala (Fræðsluefni).