Vika bráðahjúkrunar verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi dagana 16. til 22. nóvember 2009 á bráðasviði Landspítala. Fræðslunefndir slysa- og bráðamóttöku G2 og bráðamóttöku 10D standa fyrir þessari nýbreytni, í samvinnu við fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga.
Tilgangur með viku bráðahjúkrunar er að gera störf bráðahjúkrunarfræðinga sýnilegri, jafnt skjólstæðingum sem samstarfsfólki. Einnig er leitast við að heiðra þá hollustu sem bráðahjúkrunarfræðingar sýna skjólstæðingum sínum með sérhæfðri bráðahjúkrun, umhyggju og umönnun skjólstæðinga, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fjölskyldur, hópa eða samfélög.
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í viku bráðahjúkrunar sem nær hápunkti á 90 ára afmælisþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar verður fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga með þriggja klukkustunda fræðsludagskrá laugardaginn 21. nóvember (sjá nánar á www.hjukrun.is). Einnig má nefna daglega fræðslu, leshring, veggspjöld, skoðunarferð, óvæntar uppákomur og fleira.
Stefnt er að því að vika bráðahjúkrunar verði árlegur viðburður í nóvember.