Ágætu samstarfsmenn á Landspítala!
Ríkisstjórn Íslands hefur nú staðfest að hafnar verði viðræður við lífeyrissjóði um fjármögnun á nýjum Landspítala. Það hefur verið eitt af helstu forgangsmálum starfsmanna og stjórnenda á Landspítala að berjast fyrir nýju háskólasjúkrahúsi enda er stór hluti af byggingum sem hýsa starfsemina fyrir löngu úr sér genginn og úreltur. Við þurfum betri vinnuaðstöðu og um leið að gera reksturinn hagkvæmari með því að sameina starfsemi. Nýr spítali styður mjög stöðuga viðleitni okkar til að tryggja sjúklingum öryggi og sem besta þjónustu.
Nú hyllir loks undir að við fáum nýtt háskólasjúkrahús og ánægjulegt er að þjóðin stendur sameinuð þar að baki, eins og hefur komið fram í stuðningi lífeyrissjóða við verkið. Starfsmenn Landspítala fagna þessum stórmerka áfanga og heita því að standa áfram vel og faglega að nauðsynlegum undirbúningi vegna byggingar nýja háskólasjúkrahússins.
Björn Zoëga forstjóri Landspítala