Ólafur lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1990. Að loknu kandídatsári á Sjúkrahúsi Akraness starfaði hann sem superkandídat og umsjónarlæknir á lyflækningadeild Landspítala 1991-1993. Frá 1993-2000 stundaði hann starfsnám í lyflækningum (´93-´96) og lungnasjúkdómum (´96-´00) við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum. Frá 1995 vann hann einnig að vísindarannsóknum á erfðasjúkdóminum slímseigju (cystic fibrosis), undir stjórn prof. Michael J. Welsh. Eftir heimkomu árið 2000 hélt Ólafur áfram vísindarannsóknum og lauk doktorsprófi frá HÍ í samvinnu við University of Iowa árið 2004. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í lyflækningum og lungnasjúkdómum á Landspítala frá ársbyrjun 2001, sem sviðsstjóri á kennslu- og fræðasviði 2005-2007 og sem aðstoðarmaður og staðgengill framkvæmdastjóra lækninga frá september 2007. Hann rak læknastofu í Reykjavík 2000-2005 en flutti þá starfsemina inn á spítalann. Ólafur starfaði sem lektor við lyfjafræðideild HÍ 2003-2009. Hann var framkvæmdastjóri framhaldsmenntunarráðs læknadeildar 2002-2006 en tók við umsjón framhaldsmenntunarráðs LSH og HÍ sl. haust.
Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga
Ólafur Baldursson verður framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala til septemberloka árið 2010.
Ólafur Baldursson hefur verið skipaður framkvæmdastjóri lækninga frá 1. október 2009 til septemberloka 2010, að undangenginni auglýsingu og viðtali. Auk hans sótti Friðbjörn Sigurðsson sérfræðilæknir um starfið. Skipunin í starfið nær yfir þann tíma sem Björn Zoëga, sem verið hefur framkvæmdastjóri lækninga, er forstjóri Landspítala í ársleyfi Huldu Gunnlaugsdóttur en við því starfi hefur hann tekið nú þegar. Ólafur hefur að undanförnu verið aðstoðarmaður og staðgengill framkvæmdastjóra lækninga. Hann hefur nú verið settur til að gegna starfi framkvæmdastjóra lækninga frá 11. september og þar til skipunin í starfið tekur gildi um mánaðamótin.