Bráðalækningar og bráðahjúkrun eru faggreinar í mikilli framþróun og í endurbættu húsnæði í Fossvogi verður hægt að bæta þjónustu við sjúklinga enn frekar og auka öryggi þeirra. Liður í breytingunum er endurskoðun á öllum verkferlum og tengslum milli bráðadeildar, sérgreina og deilda spítalans. Markmiðið er að tryggja vel skilgreinda aðkomu og skilvirka verkferla fyrir alla sjúklingahópa sem leita á bráðadeild. Húsnæðið verður líka endurbætt og búnaður og tæki endurnýjuð.
Kostnaður við húsnæðisbreytingar, þjálfun starfsfólks og undirbúning, endurnýjun tækja og búnaðar og flutning er talinn verða um 230 milljónir króna. Hins vegar er áætlað að með því að sameina bráðamóttökurnar náist um 100 milljóna króna árlegur sparnaður. Sá sparnaður næst með minni launakostnaði, styttri dvalartíma sjúklinga á bráðadeild og fækkun heimsókna á bráðadeild, án þess að það komi niður á þjónustunni.
Með sameiningu bráðalækninga á Landspítala lýkur samruna sérgreina sem staðið hefur yfir frá því að sjúkrahúsin í Reykjavík sameinuðust árið 2000. Þessi endurskipulagning hefur skilað bættri þjónustu við sjúklinga og hagræðingu í rekstri. Full hagræðing næst þó ekki fyrr en öll bráðaþjónustan verður sameinuð í nýjum Landspítala.