Nýtt skipurit Landspítala tók gildi 8. júní 2009 í kjölfar þess að forstjóri spítalans kynnti Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra tillögu að því, ásamt skýringum. Með nýju skipuriti eru boðleiðir styttar og stuðlað að dreifstýringu þannig að ákvarðanir um stjórnun standi nær skjólstæðingum spítalans. Heilbrigðisráðherra staðfestir skipurit spítalans lögum samkvæmt.
Sá hluti skipuritsins sem snýr að klínísku þjónustunni tók gildi 1. maí en stoðþjónustan bættist nú við. Með skipuritinu fylgdu ítarlegar skýringar þar sem gerð er grein fyrir helstu starfseiningum, stjórnunarstöðum og næstu verkefnum sem tengjast mótun stjórnskipulagsins. Skipuritið og skýringarnar eru á upplýsingavef Landspítala www.landspitali.is.
Skipurit Landspítala
-skýringar með skipuritinu (pdf)
Klínísk þjónusta
Klínísk svið eru kvenna- og barnasvið, bráðasvið, geðsvið, lyflækningasvið, rannsóknarsvið og skurðlækningasvið. Framkvæmdastjóri stýrir hverju klínísku sviði og tóku nýir framkvæmdastjórar þeirra til starfa 1. maí 2009. Þeim er ætlað að gefa út yfirlýsingu um samstarf og þjónustu við önnur klínísk svið fyrir 1. október 2009.
Framkvæmdastjórarnir 6 sem stýra klínískum sviðum eiga sæti í framkvæmdastjórn Landspítala ásamt forstjóra, framkvæmdastjórum hjúkrunar og lækninga og 4 framkvæmdastjórum stoðsviða.
(Klínísk svið sem lögð voru niður 1. maí 2009: Barnasvið, kvennasvið, geðsvið, lyflækningasvið I, lyflækningasvið II, skurðlækningasvið, svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusvið, slysa- og bráðasvið, myndgreiningarsvið, endurhæfingarsvið, öldrunarsvið og rannsóknarsvið. Sviðunum stýrðu sviðsstjóri hjúkrunar og sviðsstjóri lækninga en þær stöður voru lagðar niður og stjórnendum þannig fækkað.)
Framkvæmdastjórar hjúkrunar og lækninga starfa samkvæmt ákvæðum heilbrigðislaga og bera faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra. Þeir móta sýn og markmið faglegra málefna er varða meðferð sjúklinga og faglega þróun heilbrigðisstarfsmanna. Framkvæmdastjórum hjúkrunar og lækninga er falin ábyrgð á ýmsum sérstökum verkefnum. Framkvæmdastjóra hjúkrunar meðal annars á klínískum leiðbeiningum, sjúkrahóteli, skilvirku flæði, næringarstofu og þjónustu presta og djákna. Framkvæmdastjóra lækninga á klínískum leiðbeiningum, sjúkraskrá, kvörtunum og kærum, lyfjamálum, sýkingavörnum, viðbragðsáætlun, samningum við sjúkrastofnanir og heilbrigðis- og upplýsingatækni.
Framkvæmdastjórar hjúkrunar og lækninga eiga sæti í framkvæmdastjórn Landspítala.
Yfirlæknar bera starfsmannaábyrgð á öllum læknum og starfsmönnum lækninga á sinni einingu. Þeir bera einnig ábyrgð á faglegri þróun, gæðum þjónustu og öryggi sjúklinga, svo og fjárhagsábyrgð m.a. á lyfjakostnaði, íhlutum, rannsóknum, myndgreiningarrannsóknum og blóðgjöfum.
Hjúkrunardeildarstjórar bera starfsmannaábyrgð á hjúkrunarfræðingum/ljósmæðrum, sjúkraliðum og öðrum starfsmönnum hjúkrunar. Þeir bera einnig ábyrgð á faglegri þróun, gæðum þjónustu og öryggi sjúklinga, svo og fjárhagslega ábyrgð á hjúkrunarvörum, býtibúri, skolvöru, húsbúnaði og öðru sem er á deildunum.
Deildarstjórar/yfirmenn annarra faghópa bera ábyrgð samsvarandi hjúkrunardeildarstjórum.
Prófessorar – Landspítali og Háskóli Íslands vinna að skilgreiningu á starfi prófessora, ráðningu, vinnuskilum og staðsetningu í skipuriti beggja stofnana.
Hjúkrunarráð og læknaráð eru lögbundnir ráðgjafar forstjóra um fagleg málefni.
Stoðþjónusta
Stoðsvið eru mannauðssvið, fjármálasvið, eignasvið og vísinda-, mennta- og gæðasvið. Framkvæmdastjóri stýri hverju stoðsviði, stjórnunarlög verða eins og á klínískum sviðum og starfsheitið sviðsstjóri er lagt niður. Framkvæmdastjórar stoðsviða eiga að endurskoða skipulag, skipurit og ráðningu stjórnenda á sínu sviði og ljúka því eigi síðar en 1. október 2009. Markmiðið er að boðleiðir og ákvarðataka sé skýr og gegnsæ gagnvart þeim sem fá þjónustu frá stoðsviðum. Stjórnendum á stoðsviðum fækkar frá því sem nú er.
Framkvæmdastjórnar stoðsviða eiga sæti í framkvæmdastjórn Landspítala.
(Núverandi skipulag stoðþjónustu sem lagt verður af: Skrifstofa fjárreiðna og upplýsinga, skrifstofa tækni og eigna, skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar og skrifstofa mannauðsmála sem hefur verið hluti af skrifstofu forstjóra. Framkvæmdastjóri hefur stýrt hverri skrifstofu nema skrifstofu mannauðsmála þar sem verið hefur sviðsstjóri með setu í framkvæmdastjórn.)
Framkvæmdastjóri fjármálasviðs - Framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs sem hefur umsjón með fjármálum spítalans og annast reikningshald hans.
Framkvæmdastjóri eignasviðs - Framkvæmdastjóri tækni og eigna verður framkvæmdastjóri eignasviðs en það annast byggingarmál, máltíðir sjúklinga, matsali, flutninga, ræstingar, þvotta og öryggismál.
Framkvæmdastjóri vísinda-, mennta- og gæðasviðs - Framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og þróunar verður framkvæmdastjóri vísinda-, mennta- og gæðasviðs sem hefur það hlutverk að greiða fyrir háskólastarfsemi og menntun heilbrigðisstétta á spítalanum, móta og framkvæma stefnu spítalans í vísindum og menntun heilbrigðisstétta á spítalanum og gangast fyrir samskiptum og samvinnu við innlendar og erlendar háskólastofnanir.
Framkvæmdastjóri mannauðsmála - Sviðsstjóri skrifstofu mannauðsmála verður framkvæmdastjóri mannauðsmála sem er nýtt starf og verður auglýst. Mannauðssvið ber ábyrgð á mannauðsstefnu Landspítala og veitir stjórnendum spítalans ráðgjöf og stuðning. Það stuðlar að hagkvæmri nýtingu mannafla, öryggi, jafnrétti og vellíðan starfsmanna.
(Fréttatilkynning)