Kvenfélagið Hringurinn hefur fært barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) að gjöf 50 milljónir króna til endurbóta á dag- og legudeild. Gjöfin var afhent á BUGL fimmtudaginn 4. júní 2009 og Hringskonum færðar þakkir fyrir þeirra stórmerka og mikilvæga framlag.
Árið 2008 var nýtt göngudeildarhús tekið í notkun á barna- og unglingageðdeild sem bætti mjög úr brýnni þörf fyrir þann hluta starfseminnar. Þær endurbætur voru í reynd fyrsti áfangi í endurbótum á öllu húsnæði BUGL við Dalbraut.
Gjöf Hringskvenna nú gerir kleift að ráðast í næsta áfanga endurnýjunarinnar sem snýr fyrst og fremst að starfsemi dagdeildar barna og bráðamóttökudeild unglinga. Áætlaður kostnaður við verkið er um 50 milljónir króna og hafist verður handa strax í sumar. Rýminu sem þessi starfsemi hefur haft til ráðstöfunar verður nú breytt og það lagfært. Auk þess stækkar rýmið um skrifstofuhúsnæði sem losnaði þegar nýja göngudeildarhúsið var tekið í notkun. Aðkoman verður líka bætt, svo og aðstaða í matsal.
Húsnæðisbreytingarnar endurspegla þá þróun sem hefur orðið á starfsemi BUGL með aukinni áherslu á dagdeildarþjónustu og sýn á sjúkling sem hluta af sinni fjölskyldu. Þannig verða deildir barna og unglinga samtengdar í rekstri og nýting húsnæðis og starfsfólks batnar um leið. Þá verður yfirsýn starfsfólks yfir starfsemina mun betri og flæði sjúklinga innan deildar auðveldara. Öll aðstaða batnar líka vegna sérhæfðrar meðferðar fyrir foreldra og fjölskyldu og til afþreyingar fyrir börnin.