Vísindi á vordögum 2009
-ungur vísindamaður ársins á Landspítala
Erna Sif Arnardóttir
M.Sc í líf- og læknavísindum, líffræðingur og doktorsnemi
Heiti doktorsverkefnis:
Genatjáning og bólgusvörun í kæfisvefni og við svefnsviptingu.
Nöfn leiðbeinanda:
Þórarinn Gíslason, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á lungnadeild Landspítala.
Allan I. Pack, prófessor við University of Pennsylvania, Bandaríkjunum og gestaprófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Upplýsingar um verkefni:
Góður svefn er lykilatriði andlegrar og líkamlegrar heilsu. Einstaklingar með truflun á svefngæðum, t.d. vegna sjúkdóms eða stytts svefntíma eru margir syfjaðri og líklegri til að valda slysum en þeir sem sofa vel. Slæm svefngæði valda almennri bólgusvörun í líkamanum sem eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig verða breytingar á hormónum sem leiða til aukinnar matarlystar og auka líkur á sykursýki og offitu. Kæfisvefn er sjúkdómur sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni sem trufla svefngæði. Kæfisvefnssjúklingar lenda oftar en heilbrigðir í slysum og eru líka oftar með sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma.
Markmið verkefnisins er að rannsaka tvo hópa:
1) Einstaklinga með ómeðhöndlaðan kæfisvefn.
Þátttakendur í íslensku kæfisvefnsrannsókninni, yfir 500 talsins með ómeðhöndlaðan kæfisvefn, voru mældir m.t.t. alvarleika kæfisvefns, mismunandi mælikvarða á offitu og fleira þátta. Einnig var mælt hjá þeim magn bólguþátta til að sjá hversu mikið hlutverk kæfisvefn hefur í aukinni bólgu og hversu mikil hækkun er vegna offitu, reykinga, hjarta- og æðasjúkdóma o.þ.h.
2) Heilbrigt fólk sem haldið er vakandi lengur en í sólarhring.
Tekið er blóð reglulega í vöku og svefni og skoðað hvaða breytingar verða á starfsemi þekktra gena í blóði við svefnleysi. Einnig ætlum við að skoða hvað greinir á milli einstaklinga sem þola svefnleysi vel og geta starfað vel þrátt fyrir að missa svefn heila nótt og þeirra sem þola svefnleysi illa og gera fleiri mistök í athyglisprófi þegar þeir eru svefnvana.
Vísindalegt gildi þessarar rannsóknar er að skilja betur þær breytingar sem verða í líkamanum vegna kæfisvefns og svefnsviptingar. Einnig að leita eftir sértækum breytingum í blóði sem geta spáð fyrir um kæfisvefn og svefnleysi. Jafnframt að skilja hvað aðgreinir þá sem þola svefnleysi og slæm svefngæði vel og þá sem þola svefnleysi illa. Slík þekking getur verið mikilvæg til að skilja betur hlutverk svefns og erfðafræðilegan mun einstaklinga. Á grunni slíkrar þekkingar má væntanlega veita einstaklingsbundna ráðgjöf um meðferð t.d. kæfisvefns og jafnvel meta fyrirfram líkur þess að einstaklingur "þoli" svefntruflun (t.d. næturvinnu).