Evrópudagur talþjálfunar er 6. mars og í ár var hann helgaður taugafræðilegum tal- og málmeinum hjá börnum og fullorðnum. Sigríður Magnúsdóttir, forstöðutalmeinafræðingur á endurhæfingasviði Landspítala og Þórunn Halldórsdóttir, yfirtalmeinafræðingur Reykjalundi, sendu eftirfarandi frá sér í tilefni af þessum degi:
"Ýmsir taugasjúkdómar hafa áhrif á tal, mál og tjáskiptagetu einstaklinga. Má þar nefna t.d. parkinsonsveiki, MS, MND, heilablóðfall, flogaveiki, heilalömun og heila- og heilahimnubólgu. Áhrif þessara sjúkdóma eru misjöfn á getu fólks til að tjá sig og skilja aðra. Hjá sumum er það skýrleiki talsins sem skerðist, hjá öðrum færni til að finna orð yfir hluti, mynda setningar, lesa og skrifa og hjá enn öðrum skerðist getan til að skilja og nota þær reglur sem gilda í samskiptum við aðra. Þegar getan til samskipta skerðist stendur fólk í mörgum tilvikum höllum fæti varðandi möguleika til vinnu, náms og félagsstarfa. Sjálfstraust bíður oft hnekki og er félagsleg einangrun algengur fylgifiskur tal- og málmeina.
Sem betur fer er margt hægt að gera fyrir fólk sem missir færni í tali og máli. Meðferð talmeinafræðings gegnir þar lykilhlutverki. Talmeinafræðingurinn greinir vandann og setur fram meðferðaráætlun sem miðar að því að ná fyrri færni til baka eða vinna á móti þeirri skerðingu sem er til staðar. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á árangur af meðferð talmeinafræðinga í slíkum tilvikum þó ekki sé alltaf hægt að endurheimta fyrri færni að fullu. Áherslur talþjálfunar eru breytilegar eftir því hvort um frumendurhæfingu á endurhæfingardeild er að ræða eða hvort framhaldsþjónusta er veitt á stofu úti í bæ. Mikilvægt er að leggja áherslu á að þjálfa einstaka þætti ásamt því að sjúklingurinn nái betri tökum á almennum samskiptum, þ.e. við fjölskyldu, vini og starfsfélaga.
Því miður er það svo að þótt sjúklingar með tal- og málmein vegna taugafræðilegra sjúkdóma eða áfalla eigi rétt á talþjálfun eftir útskrift frá spítala þá eru þeir fáir sem geta nýtt sér það m.a. vegna þess hve greiðsluþátttaka ríkisins í talþjálfun er lítil (í kringum 30% fyrir meðferðartíma barna, öryrkja og ellilífeyrisþega). Oft er erfitt fyrir sjúklinga að greiða fyrir talþjálfun enda í mörgum tilvikum um að ræða fólk sem hefur orðið fyrir tekjumissi í kjölfar veikindanna. Skortur á talmeinafræðingum er önnur hindrun í aðgengi sjúklinga að talþjálfun. Á Íslandi starfa 40 talmeinafræðingar og hefur nýliðun verið hæg sl. ár. Erfitt hefur verið að manna lausar stöður á heilbrigðisstofnunum og í skólum og bið hefur verið eftir að komast í talþjálfun á stofu. Það hefur lengi verið áhyggjuefni talmeinafræðinga hve nýliðun í stéttinni er hæg á meðan þörf fyrir þjónustu hefur aukist. Nú er í undirbúningi að koma af stað námsbraut á meistarastigi við Háskóla Íslands í talmeinafræði en mjög mikilvægt er að slíkt nám fari fram í íslensku málumhverfi. Þegar þessi námsbraut verður að veruleika, mun aðgengi einstaklinga með tal- og málmein að talþjálfun batna, auk þess sem þekking á birtingamyndum tal- og málmeina hjá Íslendingum mun aukast með efldu rannsóknar- og þróunarstarfi."