Nýtt skipurit Landspítala tekur gildi 1. júní 2009. Klíníski hluti þess hefur verið mótaður að undanförnu og tekur gildi 1. maí. Skipulag stoðþjónustu spítalans verður á sama hátt mótað næstu mánuði.
Hulda Gunnlaugsdóttir forstjóri kynnti nýja skipulagið á fundum með starfsmönnum Landspítala síðdegis föstudaginn 6. mars 2009.
Kynning - glærur (pdf)
Klínískum sviðum á Landspítala fækkar úr 12 í 6. Tveir sviðsstjórar stýra nú flestum klínísku sviðanna á Landspítala, sviðsstjóri hjúkrunar og sviðsstjóri lækninga. Alls eru sviðsstjórar klínísku sviðanna 23 talsins og hafa þeir til þessa verið valdir til þeirra starfa. Nýjum klínískum sviðum stjórna framkvæmdastjórar sem verða ráðnir til 5 ára í senn. Störfin verða auglýst í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu helgina 7. og 8. mars og þarf að skila umsóknum í síðasta lagi 23. mars.
Núverandi klínísk svið |
Ný klínísk svið Bráðasvið Kvenna- og barnasvið Rannsóknarsvið Geðsvið Lyflækningasvið Skurðlækningasvið |
Framkvæmdastjórar á Landspítala - auglýsing (pdf)
Auglýst eftir 6 nýjum framkvæmdastjórum - vefsíða (á korktöflunni)
Framkvæmdastjóri bráðasviðs
Bráðasvið annast þjónustu við bráðveika og slasaða. Meginverkefni sviðsins á næstunni verður sameining slysa- og bráðadeildar í Fossvogi og bráðamóttöku við Hringbraut. Önnur starfsemi á bráðasviði verður neyðarmóttaka, áfallahjálp, viðbragðsáætlun við hópslysum og miðstöð um skilvirkt flæði. Á sviðinu verða um 350 starfsmenn og áætluð velta þess er um 1,9 milljarðar króna.
Framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs
Á kvenna- og barnasviði verður veitt þjónusta vegna kvensjúkdóma, meðgönguvandamála og fæðinga-, nýbura- og barnalækninga. Barna- og unglingageðdeild verður einnig starfrækt á sviðinu. Að auki mun sviðið þjóna langveikum börnum með rekstri Rjóðursins. Á því verða um 510 starfsmenn og áætluð velta þess er um 3,3 milljarðar króna.
Framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs
Á rannsóknarsviði eru rannsóknarstofur í blóðmeinafræði, erfðalæknisfræði, litningarannsóknum, meinafræði, ónæmisfræði, sýklafræði og veirufræði. Öll myndgreiningarþjónusta spítalans tilheyrir þessu sviði. Þar verða um 420 starfsmenn og áætluð velta þess er um 3,8 milljarðar króna.
Framkvæmdastjóri geðsviðs
Geðsvið annast þjónustu vegna geðrænna vandamála fullorðinna og hæfingar. Þjónustan mun færast í æ ríkari mæli í dag- og göngudeildir og vinnu við búsetuúrræði fyrir fjölfatlaða og langveika geðfatlaða. Sálfræðingar og félagsráðgjafar tilheyra sviðinu en veita þjónustu á öðrum klínískum sviðum spítalans. Á sviðinu verða um 670 starfsmenn og áætluð velta þess er um 3,3 milljarðar króna.
Framkvæmdastjóri lyflækningasviðs
Á lyflækningasviði verður veitt þjónusta í öllum helstu greinum lyflækninga. Sviðið er umfangsmikið og nær einnig til þjónustu blóð- og krabbameinslækninga auk öldrunarlækninga og endurhæfingar. Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar tilheyra sviðinu en veita einnig þjónustu á öðrum klínískum sviðum spítalans. Á lyflækningasviði verða um 1.490 starfsmenn og áætluð velta þess er um 8,8 milljarðar.
Framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs
Á skurðlækningasviði verður veitt þjónusta í öllum helstu greinum skurðlækninga á legu-, dag- og göngudeildum. Öll þjónusta er varðar svæfingar og gjörgæslu tilheyrir sviðinu auk reksturs skurðstofa og Blóðbankans. Sviðið er umfangsmikið en á því verða um 1.150 starfsmenn. Áætluð velta þess er um 7,9 milljarðar króna.