Kvennasvið LSH stendur í fyrsta skipti fyrir alþjóðlegu ALSO námskeiði sem eru ætluð læknum og ljósmæðrum sem sinna konum á meðgöngu og í fæðingu. Innleiðing ALSO námskeiðanna á Íslandi er samstarfsverkefni kvennasviðs Landspítala og Ljósmæðrafélags Íslands. Styrktarsjóður Ljósmæðrafélags Íslands veitti styrki til þjálfunar þeirra ljósmæðra sem leiðbeina á námskeiðinu og einnig til kaupa á kennslugögnum sem notuð verða.
Námskeiðið verður haldið 14. og 15. maí 2009 í fundar- og kennsluaðstöðu Landspítala Kópavogi. Það miðar að því að viðhalda þekkingu og þjálfa rétt viðbrögð við bráðatilfellum á meðgöngu og í fæðingu.
Á námskeiðinu verða nokkrir fyrirlestrar en kennslan fer að mestu leyti fram í litlum hópum þar sem tekin eru fyrir ákveðin tilfelli og handbrögð æfð á brúðum.
Helstu þættir námskeiðsins:
• Sjúkdómar og bráð vandamál á meðgöngu
• Fyrirburafæðingar / PPROM
• Langdregnar fæðingar
• Eftirlit fósturs í fæðingu
• Axlarklemma
• Áhaldafæðingar
• Afbrigðilegar stöður – Sitjandi fæðing
• Blæðing eftir fæðingu
• Endurlífgun þungaðra kvenna
• Endurlífgun nýbura
ALSO námskeiðin eru nú haldin í nær 50 löndum. Þau hafa verið mjög vinsæl enda þykja þau krefjandi og mjög gagnleg. Fjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er að hámarki 24.
Til að ljúka námskeiðinu þurfa að þátttakendur að ná skriflegu og verklegu prófi og taka þátt í öllum hlutum námskeiðsins. Verklega prófið byggir á þeirri kennslu sem fram fer á námskeiðinu en skriflega prófið (krossapróf) byggir auk þess á því lesefni sem þátttakendur fá sent fyrir námskeiðið. Það er því nauðsynlegt að lesa vel yfir námsefnið til að eiga möguleika á því að ná krossaprófinu. Námsgögnin og krossaprófið eru á ensku en námskeiðið fer að mestu leyti fram á íslensku. Á vefsvæði ALSO í Bretlandi er spurningabanki sem gott er að æfa sig á fyrir krossaprófið (http://www.also.org.uk/mcq.asp). Spurningabankinn gagnast einnig til að meta eigin þekkingu á þessu sviði.
Námskeiðsgjaldið er 80.000 kr. Innifalið í því eru námsgögn, hádegisverður og kaffi meðan á námskeiðinu stendur.
Hægt er að nálgast upplýsingar um ALSO á vefsvæðum ALSO í Bandaríkjunum, Bretlandi, Skandínavíu.
Bandaríkin - http://www.aafp.org/online/en/home/cme/aafpcourses/clinicalcourses/also.html
Bretland - http://www.also.org.uk
Skandínavía - http://www.also-scandinavia.com/
Skráning á námskeiðið fer fram hjá Önnu Haarde, ritara til 16. mars 2009.
Sími 543 3324. Netfang annahaar@landspitali.is
Staðfesta þarf þátttöku á námskeiðinu með því að greiða 20.000 kr. staðfestingagjald sem er óafturkræft. Námsgögn má sækja eða fá send um leið og staðfestingargjald hefur verið greitt.
Námskeiðsgjald þarf að greiða að fullu 4 vikum áður en námskeiðið hefst og fæst ekki endurgreitt ef afbókað er eftir þann tíma. Eingöngu er hægt að afbóka námskeið skriflega með því að senda tölvupóst á annahaar@landspitali.is. Sendur verður út gíróseðill eftir skráningu sem birtist einnig í heimabanka.
Leiðbeinendur á námskeiðinu eru íslenskar ljósmæður og fæðingarlæknar sem eru viðurkenndir ALSO-leiðbeinendur en þar sem þetta er í fyrsta sinn sem námskeiðið er haldið á Íslandi verða danskir sérfræðingar þeim til halds og trausts.