Lionsklúbburinn Njörður kom færandi hendi á endurhæfingardeild Landspítala Grensási með margar góðar gjafir sem voru afhentar fimmtudaginn 11. desember 2008. Klúbburinn er ötull stuðningsaðili deildarinnar og færði henni fjölþættan endurhæfingarbúnað að verðmæti um 8 milljónir króna. Um er að ræða tölvustýrðan búnað til göngugreiningar sem greinir og mælir árangur gönguþjálfunar, tölvustýrt hand- og fóthjól sem hannað er með þarfir lamaðra í huga og þrekhjól sem hentar vel fyrir einstaklinga með skerta hreyfigetu, auk þess rafknúna baðlyftustóla og vinnustóla.
Starfsfólk endurhæfingardeildarinnar færði þakkir fyrir þessar höfðinglegu gjafir sem muni nýtast sjúklingum hennar mjög vel.