Kvennadeild Reykjavíkurdeildar RKÍ gefur ómtæki
Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands hefur fært fæðingardeild Landspítala að gjöf Alkoa - Prosound 6 ómtæki, ásamt tveimur "próbum" og prentara. Gjöfin var afhent fimmtudaginn 11. desember 2008. Tækið er lítið og því auðvelt að flytja það milli herbergja. Það er notað við ýmsar aðstæður á fæðingardeildinni, til dæmis við tvíburafæðingar, til að kanna legu fósturs, kanna staðsetningu fylgju og fleira, m.a. að greina blæðingu á bak við fylgju og lengd legháls hjá konum sem eru í yfirvofandi fyrirburafæðingum. Myndgæði eru afar mikil og tækið hentar vel fyrir starfsemina. Það leysir af hólmi eldra tæki sem gefið var fyrir um 8 árum og gjöfin kemur því að góðum notum.