Nýskipað framhaldsmenntunarráð Landspítala (FMRL) hóf formlega störf á haustdögum 2008. Formaður þess er Ólafur Baldursson dr. med. lungnalæknir og aðstoðarmaður lækningaforstjóra. Ólafur starfaði fyrir framhaldsmenntunarráð læknadeildar HÍ til ársins 2005 og sat einnig í rannsóknarnámsnefnd hennar.
Helstu markmið framhaldsmenntunarráðs Landspítala eru eftirfarandi:
- Að efla Landspítala sem háskólasjúkrahús
- Að vinna að því að efla framhaldsmenntun allra heilbrigðisstétta við Landspítala
- Að efla tengsl framhaldsmenntunar og starfsþróunar og tryggja bestu nýtingu mannauðs.
- Að stuðla að því að framhaldsnám við Landspítala verði formlega metið og gert sambærilegt við það nám sem fram fer við bestu háskólasjúkrahús erlendis
- Að efla tengsl og samvinnu milli Landspítala, Háskóla Íslands og eftir atvikum annarra menntastofnana um framhaldsmenntun á heilbrigðissviði
Framhaldsmenntunarráð Landspítala var formlega skipað af forstjóra Landspítala, þann 7. júlí síðastliðinn. Skipað er í ráðið á grundvelli samnings Landspítala - háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands, dagsett 27. apríl 2006, og 20. greinar laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Ráðið skipa, auk Ólafs þau Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjúkrunar, Helga M. Ögmundsdóttir prófessor í frumulíffræði, Jón Friðrik Sigurðsson dósent í sálfræði og forstöðusálfræðingur, Kristín Björnsdóttir prófessor í hjúkrunarfræði, Runólfur Pálsson dósent í lyflæknisfræði og kennslustjóri lyflækningasviðs I og Tómas Guðbjartsson prófessor í skurðlækningum. Sigrún Ingimarsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar, er starfsmaður ráðsins.
Framhaldsmenntunarráð Landspítala hefur lagt drög að þeim verkefnum sem framundan eru og hafið undirbúningsvinnu.
Fyrstu verkefni ráðsins eru:
- Að afla upplýsinga um skipulag framhaldsmenntunar á Landspítala með það í huga að styrkja það sem vel er gert, skoða hvað betur mætti fara og kanna hvernig nýta megi þekkingu, reynslu og sambönd við innlenda og erlenda aðila, þvert á faggreinar.
- Fara yfir stöðu framhaldsmenntunar á Landspítala, meðal annars með því að skoða innra skipulag svo sem skipurit Landspítala, sérfræðinámsreglugerðir, marklýsingar, vottun náms og skipan í sérfræðinámsnefndir.
- Skapa vettvang fyrir umræðu um framhaldsmenntun á Landspítala, meðal annars með málþingum sem skipulögð verða af ráðinu.