Stofnaður hefur verið nýr forvarna- og fræðslusjóður, "Þú getur", til styrktar þeim sem eiga við geðræna vanlíðan eða veikindi að stríða. Markmið sjóðsins er að styrkja þá til náms sem átt hafa við geðræn veikindi að stríða, að efla nýsköpun og bætta þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna og að stuðla að umræðu og aðgerðum sem draga úr fordómum í samfélaginu.
Stofnandi sjóðsins er dr. Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og í stjórn sitja auk hans, Ása Ólafsdóttir hrl., lögmaður, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og f.v. heilbrigðisráðherra, sr. Pálmi Matthíasson sóknarprestur í Bústaðasókn og dr. Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og f.v. landlæknir.
Fjáröflun nýstofnaðs sjóðs hefst með stórtónleikum í Háskólabíó miðvikudagskvöldið 12. nóvember 2008. Aðgangseyrir er kr. 2.000 og miðar eru seldir í verslunum Lyfju á höfuðborgarsvæðinu.