Starfsnám til sérfræðiviðurkenningar í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum hófst á LSH þann 16. október 2008. Í framhaldi af álitsgerð starfshóps um framhaldsmenntun á LSH og stofnunar framhaldsmenntunarráðs unnu þær Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjúkrunar, Kristín Björnsdóttir prófessor og Hrund Sch. Thorsteinsson sviðsstjóri skipulag að slíku starfsnámi. Haft var samráð við sviðsstjóra og sérfræðinga í hjúkrun við skipulag námsins.
Um tveggja ára starfsnám er að ræða fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður sem nýlokið hafa meistaraprófi. Markmið starfsnámsins eru að
-byggja upp klíníska færni og þekkingu í viðkomandi sérgrein hjúkrunar
-styrkja rannsóknarþjálfun og þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum í viðkomandi sérgrein
- styrkja þjálfun í kennslu, fræðslu og ráðgjafarhlutverki.
Starfsnámið fer að mestu leyti fram á því klínísku sviði sem sérgrein hjúkrunar nær til en einnig er gert ráð fyrir starfi þvert á sviðaskiptingu spítalans auk starfskynningar innanlands og utan. Skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar mun halda utan um framkvæmd starfsnámsins en unnið er skv. marklýsingu.
Sjö hjúkrunarfræðingar / ljósmæður sóttu um starfsnámið, fimm luku meistaraprófi árið 2008 og tveir árið 2007. Ákveðið var að taka alla umsækjendur í námið en þeir munu starfa á barnasviði, geðsviði, kvennasviði, skurðlækningasviði, slysa- og bráðasviði og svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði og öldrunarsviði. Hjúkrunarfræðingar sem luku meistaraprófi árið 2007 verða í eins árs starfsnámi.
Tæplega 20 sérfræðingar í hjúkrun starfa á Landspítala í dag. Formlegt starfsnám til sérfræðiviðurkenningar mun styðja við þá hjúkrunarfræðinga/ljósmæður sem vilja verða sérfræðingar um leið og hjúkrun eflist með aukinni þekkingu og rannsóknum í hjúkrun.