Kæru samstarfsmenn!
Verulega næðir nú um íslenskt samfélag og ljóst að framundan eru erfiðir tímar fyrir flesta landsmenn. Nú ríður á að menn snúi bökum saman og sammælist um að mæta þessum þrengingum með æðruleysi. Starfsmenn Landspítala bera mikla ábyrgð, ekki aðeins gagnvart sjúklingum sínum heldur einnig samstarfsmönnum og samfélaginu öllu.
Stærsta heilbrigðisstofnun þjóðarinnar hvikar hvergi frá þeim markmiðum sínum að veita bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.
Það mikilvægasta sem fólk getur gert þegar á móti blæs í samfélaginu er að standa saman, styðja sína minnstu bræður, halda ró sinni, vinna faglega með virðingu fyrir sjúklingum og láta verkin tala.
Ég hvet starfsmenn Landspítala til að draga andann djúpt, leita styrks hver hjá öðrum og horfa keikir til betri tíðar. Þótt staðan sé erfið eru alltaf möguleikar í nánustu framtíð til að styrkja okkur og okkar starfsemi.
Guð og gæfa fylgi ykkur!
Björn Zoëga s. forstjóri.