Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hefur sent forstöðumönnum heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva eftirfarandi orðsendingu:
"Erfiðleikar ríða nú yfir íslenskt þjóðfélag. Enginn veit hvaða áhrif fjárhagskreppan mun hafa á einstaklinga sem lenda í erfiðleikum hennar vegna eða vegna óbeinna afleiðinga af henni. Af þessum sökum brýni ég fyrir forstöðumönnum að tryggja að hver stofnun geri sitt, að hver starfsmaður geri sitt, til að aðstoða þá sem leita til heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva. Þá bið ég alla heilbrigðisstarfsmenn að hafa vakandi auga með þeim sem eru hjálpar þurfi.Nú reynir á okkur öll."
Jafnframt fól heilbrigðisráðherra í gærkvöldi forstjóra Landspítala að hefja undirbúning að því að styrkja og undirbúa geðsvið spítalans þannig að það geti sem best þjónað þeim einstaklingum sem þurfa aðstoð til að takast á við erfiðleika sem koma upp vegna núverandi aðstæðna á fjármálamarkaði. Undirbúningur af hálfu forstjóra er þegar hafinn.
Þá hefur heilbrigðisráðherra falið forstjóra og lækningaforstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að koma á fót bráðaþjónustu eða samsvarandi úrræðum sem aðstoðar fólk í tímabundnum erfiðleikum vegna umrótsins sem nú ríður yfir.
"Það er ljóst að mjög mun reyna á heilbrigðisþjónustuna, sem eina veigamestu grunneiningu samfélagsins, á næstunni," segir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra á upplýsingavef heilbrigðisráðuneytisins. "Heilbrigðistarfsmenn eru þrautþjálfaðir og afar færir til að leiðbeina og hjálpa þeim einstaklingum sem eru hjálpar þurfi og ég veit að þeir eru við öllu búnir. Ég hef haft samband við Landspítalann, Heilsugæsluna og allar heilbrigðisstofnanir og þar verður fólk í viðbragðstöðu."