Rannsóknarverkefni Björns og félaga er framlenging á ítarlegri faraldsfræðirannsókn um sóragigt í Reykjavík, þ.e. um algengi og birtingarform liðsjúkdómsins ásamt horfum sjúklinga með liðagigt samhliða húðsjúkdómnum psoriasis. Reykjavíkur sóragigtarrannsóknin er unnin í samvinnu við prófessor Helga Valdimarsson og læknana Jóhann Elí Guðjónsson og Þorvarð Jón Löve. Seinni hluti verkefnisins, þ.e. verðlaunaverkefnið, var unninn með aðstoð Íslendingabókar og Ara Kárasonar hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Ársfundur EULAR-samtakanna er stærsti vísindafundur um gigtarmálefni sem haldinn er í heiminum en yfir 15.000 heilbrigðisstarfsmenn sóttu þingið. Á þinginu voru kynnt yfir 3000 rannsóknarverkefni og voru sex klínísk rannsóknarverkefni heiðruð sérstaklega sem áhugaverð og framsækin, þ.á m. var sóragigtarættarrannsóknin. Það er því mikill heiður fyrir íslenska gigtarlækna og Íslenska erfðagreiningu að fá viðurkenningu sem þessa.
Sóragigt hefur sterka ættarfylgni meðal fyrsta stigs ættingja samkvæmt erlendum rannsóknum. Með því að nota Íslendingabók er í fyrsta sinn unnt að kanna skyldleika fleiri ættliða með tilliti til sóragigtar. Allir þátttakendur í faraldsfræðihluta Reykjavíkur sóraggitarrannsóknarinnar var ættræktur í Íslendingabók með aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar með leyfum Persónuverndar og vísindasiðanefndar. Niðurstöðurnar sýndu að fyrstu, annarrar, þriðju og fjórðu gráðu ættingjar einstaklinga með sóragigt höfðu marktækt hækkaða áhættu á að fá sóragigt en áhættan hvarf fyrst hjá fimmtu gráðu ættingjum.
Evrópskir gigtarlæknar heiðra íslenskt rannsóknarverkefni
Vísindaráð evrópsku gigtarsamtakanna EULAR hefur veitt íslenskri rannsókn á ættlægni sóragigtar viðurkenningu.