Kvennasvið Landspítala fékk sérstaka hvatningarviðurkenningu þegar fjármálaráðherra afhenti Samkeppniseftirlitinu viðurkenningu sem ríkisstofnun til fyrirmyndar 2008 við athöfn 14. maí. Geislavarnir ríkisisins fengu sams konar viðurkenningu og kvennasviðið. Hildur Harðardóttir og Margrét I. Hallgrímsson sviðsstjórar kvennasviðs tóku við viðurkenningunni.
Fjármálaráðherra skipaði í janúar síðastliðnum nefnd til þess að velja ríkisstofnun sem skarað hefur fram úr og verið til fyrirmyndar í starfi sínu. Í henni voru Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnsýslufræðingur og Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis. Með nefndinni störfuðu Angantýr Einarsson, skrifstofustjóri og Arnar Þór Másson stjórnmálafræðingur í fjármálaráðuneytinu.
Óskað var eftir tilnefningum frá ráðuneytum og ríkisstofnanir gátu einnig sjálfar óskað eftir þátttöku. Alls tóku 15 stofnanir þátt að þessu sinni. Horft var til stefnumótunar, framtíðarsýnar og markmiðssetningar stofnana við ákvörðun um valið. Einnig var horft til stjórnunaraðferða og hvernig stjórnendur og starfsmenn fylgja eftir að settum markmiðum sé náð. Skoðað var hvaða aðferðum stofnanir beita við að þróast og bæta árangur sinn í síbreytilegu umhverfi, auka nýjungar í þjónustu við notendur og bæta liðsheild innan stofnananna. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að starfsemi ríkisstofnunar til fyrirmyndar væri árangursrík, skilvirk og að stjórnendur legðu áherslu á að gera betur.
"Þó svo að um ólíkar stofnanir sé að ræða þá eru ótrúlega margir þræðir líkir hvað varðar stórnun og rekstur," segir Hildur Harðardóttir sviðsstjóri lækninga á kvennasviði. "Fyrir okkur á kvennasviði eru þessi hvatningarverðlaun mikill heiður og sýnir að við erum á réttri braut. Þessi árangur er að sjálfsögðu árangur okkar allra sem hér störfum og við skulum muna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Hér á kvennasviði leggja allir sitt af mörkum til að veita sem besta þjónustu, gildir einu hvaða stétt á í hlut, það leggja sig allir fram 100%. Óskum okkur öllum til hamingju með þessa hvatningu áfram til góðra verka."
Sjá nánar fréttatilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins