Samningur milli Landspítala og Þjóðkirkjunnar um klínískt sálgæslunám guðfræði- og djáknanema á Landspítala var undirritaður á skrifstofu biskups Íslands mánudaginn 31. mars. 2008. Þjóðkirkjan mun leggja til árlega jafngildi 50% launa prests við spítalann til kennslu í klínískri sálgæslu. Landspítali tekur að sér að skapa tilhlýðilegar aðstæður fyrir verklega kennslu í klínískri sálgæslu.
Síðustu tvo áratugi rúma hefur sálgæsla presta og djákna sannað mikilvægi sitt og vaxið og dafnað og mætt þörfum fólks bæði sjúklinga aðstandenda og starfsfólks. Klínískt sálgæslunám hafa prestar og djáknar til þessa orðið að sækja sér til annarra landa og þá aðallega Bandaríkjanna og Norðurlandanna. Í náminu felst samþætting fræðilegrar tileinkunnar á háskólastigi og starfsþjálfunar á vettvangi þar sem stuðningur er veittur þeim sem takast á við það sem fylgir margvíslegum áföllum og heilsubresti, eiga í tilvistarvanda o.fl. Þjálfunin miðar að því að auka hæfni presta og djákna til að veita þessa andlegu umönnun öllum án tillits til lífsskoðana.
Með samkomulaginu er stefnt að því að klínískt sálgæslunám verði liður í starfsþjálfun. Með þessu samkomulagi er stigið afar merkilegt skref í guðfræðinámi á Íslandi. Og eins er þar í fólgin staðfesting á mikilvægi sálgæslu presta og djákna á spítalanum.
Mynd: Magnús Pétursson forstjóri Landspítala og Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands undirrituðu samninginn. Þetta var síðasta embættisverk Magnúsar sem lætur nú af störfum eftir að hafa verið forstjóri spítalans í 9 ár.