"Ástæða er til þess að horfa um öxl og þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum Landspítala sem hafa með ýmsum hætti stuðlað að því að nú er endanlega ljóst að nýtt háskólasjúkrahús verður reist við Hringbraut. Jafnframt er ástæða til þess að hvetja til þess að sú samstaða sem verið hefur innan spítalans um byggingaráformin haldist áfram. Að þessu mikla verkefni hafa komið fjölmargir hópar, stórir og smáir, til þess að rýna í þarfir fyrir nýtt sjúkrahús á nýrri öld og til þess að tryggja að skipulag starfseminnar á nýja spítalanum verði eins gott og hugsast getur fyrir sjúklinga, aðstandendur, starfsfólk og nemendur.
Í byrjun september 2007 skipaði forstjóri stýrinefnd til þess að leiða undirbúning nýbygginga yfir starfsemi spítalans í samstarfi við nefnd heilbrigðisráðherra um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur. Starfið leiddi Jóhannes M. Gunnarsson læknir, í tímabundnu leyfi frá störfum framkvæmdastjóra lækninga. Með honum störfuðu Gyða Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur, Friðbjörn Sigurðsson sérfræðilæknir, Aðalsteinn Pálsson framkvæmdastjóri tækni og eigna, Margrét I. Hallgrímsson sviðsstjóri, Kolbrún Gísladóttir hjúkrunarfræðingur, Kristján Erlendsson framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og þróunar, Páll Helgi Möller yfirlæknir og Steinunn Ingvarsdóttir deildarstjóri.
Þá störfuðu 44 þarfagreiningarhópar að verkefninu, 35 á vegum spítalans og 9 sem fjölluðu um aðstöðu heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands.Öllum sem þátt tóku í vinnu í stýrinefndinni eða á hennar vegum þakka ég afar gott starf við mótun þeirrar spítalabyggingar sem nú er ákveðið að reisa. Stýrinefndin skilaði viðamiklu áliti 29. febrúar síðastliðinn en þar er lýst flestum meginþáttum starfseminnar og hvernig starfsmenn telja að henni verði best fyrir komið. Á vef nýja háskólasjúkrahússins verður hægt að skoða greinargerðina í heild en meginniðurstöður nefndarinnar eru hér.
Viss þáttaskil urðu um síðastliðin mánaðamót þegar heilbrigðisráðherra og formaður nefndar heilbrigðisráðherra um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana kynntu ákvörðun stjórnvalda um framhald verkefnisins. Á næstu þremur mánuðum fer rýnihópur endanlega yfir byggingaráformin og sett verða saman útboðsgögn til hönnunar hússins. Ég leita hér með til þeirra sem í stýrinefndinni sátu og formanna þarfagreiningarhópa um að leggja áfram gott til meðan á þessum lokaverkefnum fyrir hönnunarsamkeppni stendur og treysti því að starfsfólk leysi það verkefni vel af hendi eins og öll önnur hingað til. Það er brýnt hagsmunamál fyrir þjóðina að eignast nýtt háskólasjúkrahús og mikilvægt að við höldum áfram að vinna saman að því að láta þann draum rætast."
Magnús Pétursson forstjóri Landspítala
Ljósmynd: Stýrinefndin skilaði lokaskýrslu 29. febrúar 2008. Nefndarformaðurinn réttir forstjóranum mikilvægan afrakstur góðra verka fjölmargra starfsmanna Landpítala til undirbúnings byggingar nýs háskólasjúkrahúss.
Tengt efni:
Hönnunarsamkeppni um nýja háskólasjúkrahúsið