Undirritaður hefur verið tilraunasamningur um þjónustu göngudeildar gigtlækninga á lyflækningasviði I. Samningurinn felur í sér tilraun til eins árs um aukna göngudeildarþjónustu í gigtlækningum og er byggður á stefnu um uppbyggingu göngudeilda sem framkvæmdastjórn LSH samþykkti 13. nóvember 2007. Samninginn undirrituðu Björn Zoëga framkvæmdastjóri lækninga, Guðmundur Þorgeirsson sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði I og Kristján Steinsson yfirlæknir gigtlækninga þann 12. desember 2007.
Markmið samningsins er að efla göngudeildarstarfsemi gigtardeildar þannig að göngudeildin þjóni betur hlutverki sínu í starfsemi Landspítala. Með því verði flæði sjúklinga bætt inn og út af spítalanum án þess að draga úr heilsufarslegu öryggi þeirra eða skerða þjónustu. Með starfinu er áformað að ná fram eftirfarandi atriðum:
- Auðvelda eftirlit með sjúklingum fyrst eftir útskrift af legudeild í þeim tilgangi að stytta dvalartíma þeirra á legudeild og fækka endurinnlögnum.
- Fjölga tímum á göngudeild þar sem fram fer uppvinnsla og meðferð flókinna tilfella svo fækka megi innlögnum á legu- og dagdeildir LSH þar sem þessari starfsemi er sinnt í dag.
- Bæta aðgengi lækna á bráðamóttöku Landspítala að göngudeildarmóttöku gigtlækna vegna eftirmeðferðar/mats sjúklinga bráðamóttöku.
- Veita öðrum deildum lyflækningasviðs og öðrum sviðum LSH aukna ráðgjöf og þjónustu á göngudeild gigtlækninga.
- Auka akademískt starf göngudeildarinnar og efla þátttöku unglækna, læknanema og eftir atvikum annarra háskólanema í heilbrigðisgreinum í göngudeildarstarfseminni.
- Auka aðgengi heilsugæslunnar að sérfræðiráðgjöf gigtlækna, háð sérstakri fjármögnun.
Göngudeild gigtlækninga lýtur stjórn yfirlæknis gigtlækninga en daglegur rekstur er í höndum tiltekins læknis sem er í forsvari fyrir starfsemi deildarinnar, í umboði yfirlæknis. Miðað er við að starfsemin fari fram í A-3 í Fossvogi.
Í samningum er miðað við að 1.760 komur til læknis verði hluti af grunnstarfsemi göngudeildar gigtlækninga og starfsskyldum gigtlækninga, þ.e. 400 komur á hvert stöðugildi gigtlækna sem eru 4,4 við gildistöku samningsins. Umbunað er fyrir 1.500 komur umfram áðurnefndar 1.760 með sérstakri greiðslu í Vísinda- og göngudeildarsjóð gigtlækninga á Landspítala. Yfirlæknir gigtlækninga ákveður hvaða læknisverk teljast til starfsemi göngudeildar og falla undir ákvæði um sérstaka umbun. Einungis verður umbunað fyrir læknisverk sem eru skilgreind sem viðfangsefni gigtlækninga. Til læknisheimsókna á göngudeild teljast eingöngu komur þegar sérfræðilæknir hefur sannanlega talað við og skoðað sjúklinginn og skráð formlega það sem fram kom í læknisheimsókninni. Samningurinn nær ekki til komu sjúklinga sem innkallaðir eru vegna vísindaverkefna.
Þóknun greiðist þannig:
- Engin þóknun greiðist fyrir fyrstu 440 komur sjúklinga til gigtlækna, ársfjórðungslega, enda hluti af starfsskyldum.
- Ársfjórðungslega sendir forsvarsmaður göngudeildar yfirlit yfir komufjölda til framkvæmdastjóra lækninga og sviðsstjóra SFU.
- Innan mánaðar frá því að ársfjórðungslegt yfirlit liggur fyrir skal greiða umsamda þóknun í Vísinda- og göngudeildarsjóð gigtlækninga á Landspítala.
- Heimilað er að halda eftir 25% af umsamdri þóknun fram að næsta uppgjöri ef vafi leikur á að komufjöldi sjúklinga nái tilskyldu lágmarki.
Meðan tilraunaverkefnið stendur yfir halda þátttakendur í því nákvæma skrá um komur sjúklinga, eðli þeirra og útkomu. Jafnframt mun skráning miðast við að hægt verði að leggja mat á áhrif verkefnisins á flæði sjúklinga (stýrt flæði) og á gæði þjónustu Landspítala. Samningurinn gildir frá 1. janúar til ársloka 2008.
Mynd: Við undirritun samningsins. Björn Zoëga framkvæmdastjóri lækninga, Kristján Steinsson yfirlæknir gigtlækninga, Arnór Víkingsson sérfræðilæknir og Guðmundur Þorgeirsson sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði I.