Háskóli Íslands (HÍ) veitti 15 starfsmönnum Landspítala (LSH) og tveimur starfsmönnum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Krabbameinsfélagi Íslands akademíska nafnbót við athöfn í hátíðarsal háskólans þriðjudaginn 20. nóvember 2007. Það var Kristín Ingólfsdóttir rektor sem afhenti skírteini sem staðfesta nafnbótina og voru 14 útgefinna skírteina frá læknadeild, 2 frá hjúkrunarfræðideild og 1 frá lyfjafræðideild. Af þeim 17 sem fengu akademíska nafnbót að þessu sinni fengu 7 lektorsnafnbót, 6 dósentsnafnbót og 4 prófessorsnafnbót.
Samkvæmt samningi LSH og HÍ geta starfsmenn LSH sótt um akademíska nafnbót frá HÍ þótt þeir séu ekki með ráðningarsamning við skólann, ef þeir standast kröfur um hæfi sem gerðar eru til kennara við Háskóla Íslands. Starfsmaður LSH sem sækir um hæfismat og sem dómnefnd telur uppfylla lágmarksskilyrði fær nafnbótina klínískur lektor og sá sem uppfyllir frekari skilyrði á kost á nafnbótinni klínískur dósent. Sá sem hins vegar stenst ítrustu kröfur og uppfyllir aukin menntunarskilyrði á möguleika á nafnbótinni klínískur prófessor.
Þeir sem öðlast akademíska nafnbót geta sótt um rannsóknarstyrki úr sjóðum sem eru í vörslu viðkomandi deildar HÍ samkvæmt reglum sem um þá sjóði gilda. Viðkomandi skuldbindur sig til að nota nafnbótina á viðeigandi hátt og að hlíta siðareglum HÍ og öðrum reglum settum af deildinni um meðferð rannsóknarviðfangsefna og um ráðvendni í rannsóknum. Þá ber þeim sem þiggur akademíska nafnbót að geta hennar ef hann birtir greinar í innlendum eða erlendum fræðitímaritum og deildin sem veitti nafnbótina getur leitað til viðkomandi um að taka að sér kennslu á hennar vegum samkvæmt nánara samkomulagi.
Akademískar nafnbætur voru fyrst veittar samkvæmt samningi HÍ og LSH í október 2004 og hefur nú 61 starfsmaður LSH fengið slíka nafnbót . Að þessu sinni voru akademískar nafnbætur í fyrsta skipti veittar öðrum en þeim sem starfa hjá LSH og er það gert samkvæmt samningi sem viðkomandi stofnanir hafa gert við HÍ.
Þeir sem fengu akademískar nafnbætur að þessu sinni voru:
Klínískur prófessor
Ástráður B. Hreiðarsson, Kristján Sigurðsson, Margrét Árnadóttir, Tómas Guðbjartsson.
Klínískur dósent
Aðalsteinn Guðmundsson, Arnar Hauksson, Gylfi Óskarsson, Ína Þórunn Marteinsdóttir, Leifur Franzson, Leifur Þorsteinsson.
Klínískur lektor
Eygló Ingadóttir, Hlíf Guðmundsdóttir, Ólafur Ó. Guðmundsson, Ólöf Sigurðardóttir, Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Sólveig Jónsdóttir, Þ. Herbert Eiríksson.
Mynd:
Viðtakendur nafnbótanna ásamt rektor Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala.
Frá vinstri: Sólveig Jónsdóttir, Margrét Árnadóttir, Kristján Sigurðsson, móðir Tómasar Guðbjartssonar, Ólöf Sigurðardóttir, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ, Ólafur Ó. Guðmundsson, Leifur Þorsteinsson, Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Aðalsteinn Guðmundsson, Ína Þórunn Marteinsdóttir, Arnar Hauksson, dóttir Leifs Franssonar, Ástráður B. Hreiðarsson, Hlíf Guðmundsdóttir, Eygló Ingadóttir og Magnús Pétursson forstjóri LSH. Á myndina vantar Gylfa Óskarsson og Þ. Herbert Eiríksson.