Geislameðferðardeild krabbameinslækninga á Landspítala hefur fengið nýjan geislahermi. Hann var formlega tekinn í notkun mánudaginn 12. nóvember 2007.
Geislahermirinn er af gerðinni Acuity iX frá fyrirtækinu Varian og fullkomnlega samhæfður línuhraðli sem var keyptur frá sama fyrirtæki árið 2004.
Þetta er eitt mikilvægasta tæki deildarinnar við undirbúning sjúklinga fyrir geislameðferð og kemur í stað tækis sem hefur verið í notkun þar í 25 ár. Tækið kostaði um 55 milljónir króna.
Í nýja geislaherminum er stafrænn búnaður og þrívíddar myndvinnsla í háum gæðaflokki. Með tækinu er hægt að staðsetja mein af mikilli nákvæmi frá öllum hliðum og teikna það upp í þrívídd til þess að gera geislun nákvæmari og hlífa viðkvæmum svæðum í kring. Þetta er því mikið framfaraspor í geislameðferð vegna krabbameina hér á landi. Tækið nýtist öllum sjúklingum sem þurfa á geislameðferð að halda en þeir eru 550 til 600 á hverju ári.
Í K-byggingu á Landspítala er sérhæfð aðstaða fyrir geislameðferð með línuhröðlum, sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Það húsnæði var tekið í notkun árið 1989 og hefur geislameðferð verið þar með tveimur háorku meðferðartækjum fyrir ytri geislameðferð, línuhraðli og kóbalttæki fram til ársins 1995 en með tveimur línuhröðlum frá árinu 1996. Tækjabúnaður fyrir innri geislameðferð var tekinn í notkun árið 1998.
Nánari upplýsingar um geislaherminn
Björn Zoëga framkvæmdastjóri lækninga og Þórarinn E. Sveinsson yfirlæknir geislalækninga krabbameina ávörpuðu gesti þegar geislahermirinn var tekinn í notkun. Garðar Mýrdal forstöðueðlisfræðingur lýsti fyrir gestum hvernig geislahermirinn virkar. Meðal gesta voru nýr ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, Berglind Ásgeirsdóttir, sem flutti kveðjur heilbrigðisráðherra sem var upptekinn í þinginu og formaður nýrrar nefndar um húsnæðismál heilbrigðisstofnana, Inga Jóna Þórðardóttir. |