Sem hluti af lokaprófum læknanema gengust 6. árs læknanemar í fyrsta sinn í maí 2007 undir staðlað og þrautreynt bandarískt próf sem hannað er og lagt fram af National Board of Medical Examiners í Philadelphiu. Próf þetta heitir Comprehensive Clinical Science Examination (CCSE) og hefur árangur á því náið forspárgildi fyrir árangur á hinum klíníska hluta USMLE (United States Medical Licensing Examination, step2) sem er hluti af því prófaferli sem ganga þarf í gegnum til að fá að stunda framhaldsnám í læknisfræði í Bandaríkjunum.
Eftir sérstaka yfirferð með prófhöldurum liggur nú fyrir að íslensku nemendurnir stóðu sig með afbrigðum vel og sums staðar betur en bandaríski samanburðarhópurinn sem prófið miðast við. Þannig fengu tveir nemendur 98 og tveir aðrir yfir 90 sem er afburða árangur.
Þessi árangur gefur óræka vísbendingu um gæði þeirrar klínísku kennslu sem nemendurnir hafa hlotið. Þar eiga langmestan hlut að máli starfsmenn Landspítala sem jafnframt eru kennarar læknadeildar, sem og sá mikli fjöldi annara starfsmanna spítalans sem hafa komið með einum eða öðrum hætti að kennslu og handleiðslu þessara nemenda og hafa skapað það andrúmsloft kennslu og vísinda sem einkennir góðan háskólaspítala. Þá er ógetið aðkomu starfsmanna heilsugæslunnar.
Nú er verið að vinna að því að koma til þessarar nemenda (nú kandidata!) upplýsingum um frammistöðu þeirra í einstökum greinum sem og niðurstöðum um frammistöðu hópsins í einstökum fræðigreinum, auk þess að draga fram upplýsingar um styrkleika og veikleika hverrar greinar fyrir sig sem og læknadeildar og háskólasjúkrahússins í heild.
Þetta prófahald er nú komið til að vera. Það er skref í átt að því að sækjast eftir mati utanaðkomandi aðila, þ.e. erlendra, á námi og kennslu í læknisfræði hérlendis og bera saman við viðurkennda staðla. Auk þess er um að ræða undirbúningsvinnu að formlegum erlendum viðurkenningum. Í framhaldinu verður t.d. unnið að því að koma á sams konar mati á kennslu í grunngreinum læknisfræðinnar með s.k. CBSE (Comprehensive Basic Science Examination).