Atorka Group hefur styrkt BUGL um 5.000.000 króna til rannsóknar- og þróunarverkefnis sem nefnist "Brúum bilið". Verkefnið snýst um að leita leiða til að efla þekkingu í heilsugæslunni á greiningu og meðferð barna með geðraskanir.
Um 20% barna og unglinga á Íslandi kljást við geðheilsuvandamál á einhverju tímaskeiði fyrir 18 ára aldur og þurfa 7-10% barna og unglinga í þeim hópi á geðrænni meðferð að halda. Hins vegar fá innan við 1% barna á Íslandi með alvarlegustu geðheilsuvandamálin þjónustu hjá BUGL.
Ætlunin er að hrinda í framkvæmd eins árs tilraunaverkefni með samningi milli BUGL og einnar heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni og vinna þar markvisst að því að efla þekkingu á geðröskunum barna með fræðslu og þjálfun fagfólks. Þjálfunin felur í sér notkun á sérhæfðum mats- og greiningartækjum ásamt því að veita kennslu í notkun viðeigandi meðferðarúrræða. Í framhaldinu er gert ráð fyrir reglulegri ráðgjöf og handleiðslu til að tryggja gæði og árangur af þeirri fræðslu sem veitt hefur verið og auka samfellu í þjónustu fyrir börn með geðraskanir. Hugmyndin er að niðurstöður verkefnisins og sú reynsla sem með því aflast nýtist til að skipuleggja aukinn stuðning BUGL við heilsugæsluna um land allt og færa þannig þjónustuna að svo miklu leyti sem unnt er nær börnunum og fjölskyldum þeirra.
Mynd: Við undirritun styrktarsamnings Atorku við barna- og unglingageðdeild, BUGL. Páll Magnússon yfirsálfræðingur, Valdís Arnardóttir kynningarstjóri Atorku, Steinunn Gunnlaugsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, Ólafur Ó. Guðmundsson yfirlæknir og Harpa Ríkarðsdóttir skrifstofustjóri.