Rannsóknastofa HÍ og LSH í öldrunarfræðum (RHLÖ) stendur fyrir námskeiði í minningavinnu miðvikudaginn 19. september 2007 í kennslusalnum á 7. hæð á Landakoti, kl. 09:00 - 16:00.
Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vinna með öldruðum og aðstandendur.
Dagskrá.
Kl. 9:00 - 9:15 Setning: Ingibjörg PétursdóttirKl. 9:15 - 10:00 Minningarvinna – yfirlit og aðferðir: Sigrún Huld Þorgrímsdóttir
Kl. 10:00 - 10:15 Kaffihlé
Kl. 10:15 - 11:15 Hópvinna/minni hópar
Kl. 11:15 - 12:00 Minningahópar: að nota minningakveikjur og velja umræðuefni
Kl. 12:00 - 12:45 Matarhlé
Kl. 12:45 - 13:15 Hópvinna I: þátttakendur skoða minningakveikjur
Kl. 13:15 - 14:00 Hópvinna II: Þátttakendur æfa sig í notkun minningakveikja
Kl. 14:00 - 14:20 Kaffihlé
Kl. 14:20 - 14:50 Lífssögunálgun og persónumiðuð umönnun: Sigrún Huld Þorgrímsdóttir
Kl. 14:50 - 15:20 Lífssögugerð: Ingibjörg Pétursdóttir
Kl. 15:20 - 15:45 Umræður
KL.15:45 - 16:00 Námskeiðslok
Skráning fer fram hjá RHLÖ á netfangið halldbj@landspitali.is
Námskeiðsgjald er 14.500 kr. og greiðist inn á reikning: 1154-15-200802, kt. 040652-7019
Innifalið í námskeiðsgjaldi eru námskeiðsgögn, hádegisverður og veitingar í kaffihléum.
Styrktaraðili: SPRON
Nánar:
Á Íslandi hefur minningavinna verið að ryðja sér til rúms, einkum í öldrunarþjónustu. Víða hafa verið starfræktir svokallaðir minningahópar sem byggja á minningum hinna öldruðu og upprifjun á liðinni tíð.
Sömuleiðis er vaxandi áhugi á að afla upplýsinga um lífshlaup skjólstæðinga, einkum þeirra sem þjást af minnissjúkdómum.
Hugtakið minningavinna á við hvers konar starfsemi með skjólstæðingum þar sem endurminningar þeirra eru notaðar skipulega til að bæta líðan þeirra eða þjónustu við þá á ýmsa vegu.
Þetta námskeið tekur til minningavinnu með öldruðum sérstaklega, en aðferðina má nota við alla aldurshópa.
Minningavinna er breið starfsemi og hefur verið flokkuð á margan hátt, hér í eftirfarandi flokka:
· Minningavinna sem geðrænt meðferðarinngrip, þá oftast stuðst við kenningar geðlæknisins Robert Butler sem hóf að nota þessa aðferð á 7. áratugnum.
· Minningavinna sem almenn virkni, yfirleitt ætlað að bæta líðan skjólstæðinga og er misjafnt hversu nákvæmlega sá tilgangur er skilgreindur
· Minningavinna sem er fléttuð inn í almenna umönnun og þjónustu við aldraða skjólstæðinga og er hluti af persónumiðaðri umönnun, þ.e. að horfa á einstaklinginn sem persónu fremur en sjúkdómstilfelli. Þetta má kalla lífssögunálgun.
· Minningavinna sem hluti af varðveislu menningararfsins með sterk tengsl við munnlega sögu og jafnvel hluti af þeirri starfsemi
Aðferðin er notuð í hópum og einstaklingsviðtölum og einnig í daglegu spjalli.
Loks má nefna sérstaklega notkun minningakveikja, en það eru ýmiss konar munir frá æsku þátttakenda sem örva minningar, m.a. með því að örva öll skynfæri og virkja þannig fleira en vitrænt starf.
Samtöl við starfsfólk í öldrunarþjónustu hafa sannfært forsvarsmenn þessa námskeiðs um að enn fleiri hafi hug á að nota þessar aðferðir en finnist þeir ekki kunna nóg, og hinir sem eru að þreifa sig áfram og vildu gjarnan fá meiri fræðslu.
Því var ákveðið að útbúa eins dags námskeið fyrir byrjendur í minningavinnu með öldruðum.
Námskeiðið er ætlað öllum sem starfa í öldrunarþjónustu, hvort heldur er með frísku öldruðu fólki sem býr heima eða veikum öldruðum sem búa á stofnunum og allt þar á milli.
Minningavinna er þverfagleg, til að stunda hana þarf enga fagmenntun, heldur fyrst og fremst áhuga á að rifja upp minningar og hlusta á minningar annarra og reynslu af að vinna með öldruðum.
Námskeiðið er hugsað fyrst og fremst sem fræðsla um almenna minningavinnu sem virkni en einnig sem kynning á notkun lífssögu og lífssögugerð.
Á námskeiðinu verður farið í eftirtalið efni:
· Almenn kynning á minningavinnu, helstu flokkum hennar og tilgangi með áherslu á aldraða skjólstæðinga
· Minningavinna með þátttakendum námskeiðsins, notaðar verða minningakveikjur frá 6. og 7. áratugnum þar sem gera má ráð fyrir að meirihluti þátttakenda hafi verið á bernsku- og æskualdri þá
· Almenn kynning á lífssögunálgun, þ.e. notkun lífssögu skjólstæðinga í daglegu starfi með þeim s.s. umönnun. Áhersla verður á skjólstæðinga með minnissjúkdóma.
· Kennsla í gerð lífssögu með áherslu á skjólstæðinga með minnissjúkdóma.
· Kennsla í að skipuleggja minningahóp, s.s. aðferðir í hópvinnu, þemavinna o.fl.
· Kennsla í að nota minningakveikjur sem höfða til margháttaðra skynjana: sjónar, heyrnar, lyktarskyns, bragðskyns, snertiskyns og hreyfiskyns
Kennarar á námskeiðinu og höfundar þess eru Ingibjörg Pétursdóttir iðjuþjálfi og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur á Landakoti. Þær hafa báðar reynslu af að þróa minningahópa og hafa skrifað og flutt fyrirlestra um efnið. Námskeiðið er haldið í samvinnu við RHLÖ, sem er miðstöð í öldrunarfræðum. Rannsóknastofan tengir saman Háskóla Íslands og Landspítala á svið öldrunarfræða. Eitt af hlutverkum hennar er að standa fyrir námskeiðum fyrir fagfólk í öldrunarþjónustu.