Sjóvá hf. hefur fært endurhæfingardeildinni á Grensási byltingarkenndan endurhæfingarbúnað. Um er að ræða tölvustýrðan tækjabúnað til gönguþjálfunar sjúklinga með lömun í fótum. Notuð er göngumylla með upphengi og ganga sjúklingar með aðstoð vélmennis. Gönguþjálfun sjúklinga með lömun í fótum er tímafrek og oft mjög líkamlega erfið fyrir sjúklinga og starfsfólk. Búnaðurinn gefur færi á mun meiri þjálfun með auðveldari hætti en áður var hægt auk þess sem hægt er að hefja gönguþjálfun fyrr en ella.
Gjöfin er sú allra stærsta sem deildinni hefur borist frá upphafi. Með gjöfinni hefur Sjóvá styrkt starfsemina með afgerandi hætti og stigið mikilvægt skref til frekara samstarfs á vettvangi endurhæfingar.
Búnaðurinn, sem kallast Lokomat, er sá fullkomnasti í heiminum á þessu sviði. Hann er framleiddur í Sviss af sprotafyrirtækinu Hocoma í samvinnu við háskólasjúkrahúsið í Balgrist. Frekari upplýsingar um búnaðinn má finna á vefsíðu Hocoma: www.hocoma.ch