Sviðsstjórar slysa- og bráðasviðs hafa sent eftirfarandi bréf til Anne Mette Pedersen deildarstjóra og Davíð O. Arnar yfirlæknis bráðamóttökunnar á Landspítala Hringbraut vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um húsnæðismál hennar:
Efni: Húsnæði bráðamóttöku við Hringbraut
Húsnæðismál bráðamótttöku við Hringbraut hafa verið í sviðsljósinu nú síðustu daga og kannski ekki að ástæðulausu. Húsnæðið er barn síns tíma og hýsti áður tannlæknadeild HÍ en þar fór fram verkleg kennsla innan deildarinnar. Á þeim tíma var engin bráðamóttaka við Hringbraut.
Hinn 1. október 1987 var bráðamóttaka opnuð í núverandi húsnæði og fagnar hún því 20 ára afmæli á þessu ári. Eins og ljóst má vera var húsnæðið ekki hannað með bráðamóttöku í huga þar sem hún er inni í miðju húsi og spölur að inngangi. Hún hefur þó þó samt stækkað nokkuð á þessum 20 árum, en betur má ef duga skal. Því má samt ekki gleyma að bráðamóttakan er vel staðsett með tilliti til hjartaþræðingaraðstöðunnar. Árangur af bráða hjartaþjónustu á LSH jafnast á við það sem best þekkist. Tíminn frá því að sjúklingar koma inn um dyrnar og þar til meðferð við bráðri kransæðastíflu hefst (Door to needle time) er að meðaltali 45 mínútur. Það er nær helmingi styttri tími en staðlar alþjóðlegu hjartasamtakanna segja til um sem er 90 mínútur. Af þessu má ráða að starfsemi bráðamótttökunnar við Hringbraut er frábær þrátt fyrir mikil þrengsli og má fyrst og fremst þakka það frábæru starfsfólki.
Sviðsstjórar slysa- og bráðasviðs LSH hafa undanfarið fundað með húsnæðisnefnd LSH um hvernig best er að bæta aðstöðu bráðamóttökunnar og eru nokkrir möguleikar til skoðunar. Lyfjaherbergi og vaktherbergi bráðamóttökunnar hafa þegar verið lagfærð. Nú er verið að bæta salernisaðstöðu fyrir sjúklinga og stefnt að því að þeim framkvæmdum ljúki fyrir 1. júlí nk. Rætt hefur verið um frekari stækkun bráðamótttökunnar inn á gang 10E og W-álmuna. Niðurstaða í því máli mun koma innan tíðar.
Það er ljóst að aðstaða sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks er ekki eins og best verður á kosið, það sama gildir víða annars staðar á LSH. Bygging nýs háskólasjúkrahúss er þess vegna knýjandi nauðsyn og að undirbúningi er unnið af fullum krafti. Það rís ekki fyrr en eftir nokkur ár og við þurfum því miður að búa við bráðabirgðalausnir enn um sinn, varanlega úrbætur fást ekki fyrr en með nýjum Landspítala.
Sviðsstjórar slysa- og bráðasviðs vilja sérstaklega þakka starfsfólki allt það góða starf sem unnið er daglega á bráðamóttöku spítalans við afar erfiðar aðstæður. Við stöndum öll saman að því að rækja störf okkar þannig að gæði starfsins og öryggi sjúklinganna sé tryggt eins og hægt er. Við höldum ótrauð áfram að reyna eftir föngum að bæta aðstöðu sjúklinga og starfsmanna á bráðamóttökunni þar til flutt verður í nýja bráðamóttöku.
Með sumarkveðjum,
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Már Kristjánsson, læknir
sviðsstjórar slysa- og bráðasviðs LSH.