Fulltrúar Planetree samtakanna í Bandaríkjunum eru núna vikuna 19. til 23. mars á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Gestirnir eru hér í tengslum við undirbúning að byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Hjúkrunarráð og læknaráð LSH höfðu frumkvæði að því að fá Planetree til ráðgjafar en samtökin hafa frá árinu 1978 aðstoðað stjórnendur sjúkrahúsa víða um heim við að auka ánægju sjúklinga og fjölskyldna þeirra með þjónustuna. Susan Frampton forseti Planetree og einn af höfundum bókarinnar "Putting Patients First: Designing and Practicing Patient-Centered Care" flutti erindi um nýjustu strauma í hönnun sjúkrahúsa og sjúklingamiðaða heilbrigðisþjónustu á ársfundi LSH þann 29. apríl 2005 sem vakti mikla athygli. Hún er meðal gestanna hér núna.
Í skipulagsvinnu vegna nýja háskólasjúkrahússins er lögð rík áhersla á það að sjúklingar verði í fyrirrúmi þegar kemur að hönnuninni sjálfri. Að tilstuðlan framkvæmdastjóra hjúkrunar á LSH fóru nokkrir starfsmenn á ársfund Planetree samtakanna í Virginíu fylki í Bandaríkjunum árið 2005 og síðan hafa verið haldnir nokkrir fundir á LSH til að kynna hugmyndafræði þeirra. Þess er vænst að starfsmenn LSH tileinki sér hugmyndafræði samtakanna sem er talin líkleg til að skila sér í bættri þjónustu við sjúklinga, bættum starfsanda og styrkari ímynd sjúkrahússins í samfélaginu.
Tilgangur heimsóknar Planetree samtakanna hér núna er að safna upplýsingum og í framhaldi af því gefa leiðbeiningar sem uppfylla þarfir og kröfur samfélagsins sem spítalinn þjónar. Skoðunin felst í því að fara um núverandi byggingar spítalans og skoða starfsemi hans ásamt því að funda með hagsmunaaðilum, þ.e. sjúklingahópum, aðstandendum, borgurum og starfsliði sjúkrahússins, sbr. dagskrá. Að því loknu gefa samtökin út leiðbeiningar um hvernig unnt er að bæta upplifun sjúklinga af núverandi þjónustu sjúkrahússins og leiðbeiningar varðandi hönnun nýrrar spítalabyggingar. Stefnt er að því að samtökin gefi skýrslu um álit sitt í maímánuði næstkomandi.
Í undirbúningsnefnd vegna samstarfsins við Planetree eru Ingólfur Þórisson, Friðbjörn Sigurðsson, Margrét I. Hallgrímsson, Gísli Einarsson og Gyða Baldursdóttir.
Ljósmynd: Planetree gestir með heimafólki. Margrét Anna Ríkharðsdóttir móttökuritari sem hefur aðstoðað við fundarhaldið núna í vikunni. Gyða Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur sem er í undirbúningsnefnd vegna samstarfsins við Planetree, Jeanette Michalak, Randy Carter og Susan Frampton frá Planetree og Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur sem er eins og Gyða í undirbúningsnefndinni.
Skylt efni:
Betri aðbúnaður á nýju sjúkrahúsi
-grein eftir Önnu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar í Morgunblaðinu í janúar 2006