Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) stefnir að því að koma upp gagnvirkum vef fyrir sjúklinga og aðstandendur sem nýta má til upplýsingamiðlunar og samskipta. Fyrir dyrum stendur endurnýjun innri og ytri vef LSH, og var markmiða- og þarfagreining fyrir hann unnin árið 2006. Þar voru lagðar línur fyrir aukin rafræn samskipti sjúklinga og spítalans með því að nýta vefinn á gagnvirkan hátt.
Gert er ráð fyrir að sjúklingur fái aðgang að "minni síðu" á vef spítalans þar sem hann hafi yfirsýn yfir sín mál hjá spítalanum, s.s. tímapantanir, niðurstöður rannsókna, o.s.frv. Meistaranemar í verkefnisstjórnun við Háskóla Íslands tóku að sér að greina helstu þarfir varðandi slík vef og ber hann vinnuheitið Kvikan.
Til að fá fram hugmyndir almennings varðandi efni vefsins var ákveðið að gera þessa könnun. Hún er aðgengileg á heimasíðum nokkurra sjúklingasamtaka og á vef LSH, www.landspitali.is. Svar þitt væri mikils metið. Það tekur aðeins um 2 - 5 mínútur að svara könnuninni. Niðurstöður hennar verða hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi undirbúning að gerð vefsins.
Könnunin er ekki persónugreinanleg og er hægt að svara henni til og með 30. mars 2007.