Fjölþjóðleg ráðstefna um einhverfu verður haldin á Grand hóteli Reykjavík dagana 30. maí til 1. júní 2007. Að henni standa Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss og Umsjónarfélag einhverfra.
Ráðstefnan nefnist "The 5th Nordic Conference on Research on Autism Spectrum Disorders" og yfirskrift hennar er "Making a difference".
Fjallað verður um nýjustu rannsóknir á einhverfu sem tengjast m.a. erfðafræði, faraldsfræði, ýmsum fylgiröskunum, umhverfisþáttum, þjónustu og málefnum fjölskyldunnar.
Lykilfyrirlesarar eru úr röðum öflugustu fræðimanna á alþjóðlegum vettvangi. Catherine Lord fjallar um greiningu einhverfu og hvert þróunin á því sviði muni leiða okkur. Eric Fombonne fjallar um miklu fjölgun greindra tilvika sem komið hefur fram víða um heim og leitar skýringa á henni, þar með talið í umhverfisþáttum.
Alls verða flutt 25 erindi á ráðstefnunni og auk þeirra mun fjöldi rannsókna verða kynntur á veggspjöldum. Fyrirlesarar, höfundar og þátttakendur koma frá Norðurlöndunum og víðar.
Ráðstefnan er opin öllum sem hafa áhuga á að kynna sér nýjustu rannsóknir og þekkingu á einhverfu.
Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu er að finna á vef ráðstefnunnar.