Innleiðing á heildrænu geðheilbrigðismati með interRAI-MH mælitækinu er að hefjast á geðsviði.
Frá 1. september 2006 hefur stýrihópur á geðsviði og innleiðingarstjóri upplýsingatæknisviðs unnið markvisst að undirbúningi innleiðingarinnar á öllum legudeildum sviðsins. Þrjátíu manna hópur hjúkrunarfræðinga, lækna, sálfræðinga, iðjuþjálfa og félagsráðgjafa hafa tekið að sér að vera stuðningsaðilar og leiðbeinendur meðan á innleiðingunni stendur. Gert er ráð fyrir að innleiðing á endurhæfingadeildum hefjist 1. mars og á bráðadeildum geðsviðs í lok mars 2007.
Starfsfólk geðsviðs LSH hefur á undanförnum árum unnið að þróun kerfisins til að undirbúa innleiðinguna. InterRAI MH - Resident Assessment Instrument Mental Health er yfirgripsmikið staðlað mælitæki með um 270 breytum. Ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækið Stiki ehf. hefur komið mælitækinu á rafrænt form á undanförnum mánuðum. InterRAI-MH er eitt af fleiri interRAI mælitækjum og er alþjóðlegt verkefni sérfræðinga og rannsakenda frá m.a. Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Noregi, Íslandi, Finnlandi, Kúbu, Ástralíu, Perú, Chile og Japan. Fulltrúar frá geðsviði LSH í alþjóðlegum samstarfshópi eru Halldór Kolbeinsson og Rakel Valdimarsdóttir.
Á interRAI-MH síðum á vef geðsviðs og í gæðahandbók sviðsins eru ítarlegar upplýsingar og fræðsluefni um innleiðinguna á þessu heildræna geðheilbrigðismati.
Mynd:
Stýrihópur interRAI Mental Health og innleiðingarstjóri UTS:
Annetta A. Ingimundardóttir
Díana Liz Franksdóttir
Íris Jónbjörnsdóttir
Kjartan J. Kjartansson
Halldór Kolbeinsson
Rakel Valdimarsdóttir