Samtök kvenna með "endómetríósu" (legslímuvilla / legslímuflakk) voru stofnuð á fjölmennum fundi í Hringsal á Landspítala Hringbraut föstudaginn 20. október 2006.
Á fundinn komu rúmlega sextíu konur með reynslu af sjúkdómnum og nokkrir aðstandendur og starfsmenn LSH.
Ása María Björnsdótti-Togola var kjörinn formaður og með henni fimm konur í fyrstu stjórn.
Auður Smith sérfræðilæknir var fundarstjóri og formaður dönsku sjúklingasamtakanna var gestur fundarins.
Tvær konur skýrðu frá sjúkdómnum og reynslu sinni og líflegar umræður urðu í kjölfarið.
Starfsreglur nýju samtakanna voru samþykktar og stuðningur frá nokkrum aðilum, m.a. LSH, var þakkaður.
Samtökin munu m.a. stuðla að fræðslu um sjúkdóminn meðal almennings og heilbrigðisstarfsfólks, efla samhjálp meðal kvenna með sjúkdóminn og stuðla að umbótum í greiningu og meðferð.