Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) og Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA) hafa gert með sér samning um að LSH hýsi öll myndgreiningargögn fyrir SHA. Um er að ræða fyrsta skrefið í frekara samstarfi SHA og LSH á þessu og fleiri sviðum.
SHA hefur aðgang að gögnunum í gegnum Ljórann sem er nýtt fjaraðgangskerfi LSH.
Starfsmenn SHA munu hafa aðgang að gögnum í greiningar- og skoðunarstöðvum á Akranesi vegna þjónustu við sjúklinga þar. Auk þess fá starfsmenn SHA aðgang að öðrum myndgreiningarrannsóknum sem vistaðar eru stafrænt hjá LSH.
Með þessu móti sparast tími sjúklinga og starfsmanna og fjármunir.
Guðjón S. Brjánsson framkvæmdastjóri Sjúkrahússins og heilsugæslustöðin á Akranesi:
Hér er án nokkurs efa tekið skref til hagsbóta fyrir sjúklinga. Með þessu samstarfi sparast líka milljónir króna sem SHA hefði ella orðið að verja til kaupa á nauðsynlegum tæknibúnaði til varðveislu myndgreiningargagna.
Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss:
Þessi samningur er gott dæmi um það hvernig samstarf heilbrigðistofnana getur skilað bæði fjárhagslegum og faglegum ávinningi.
Mynd:
Undirritun samnings SHA og LSH 23. október 2006:
Fremri röð: Guðjón S. Brjánsson framkvæmdastjóri Sjúkrahússins og heilsustöðvarinnar á Akranesi (SHA), Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), Ásgeir
Ásgeirsson skrifstofustjóri SHA og Þórir Bergmundsson lækningaforstjóri SHA.
Aftari röð: Björn Jónsson sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs LSH og Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri myndgreiningarsviðs LSH